Erlent

Göngumenn létust á Everest-fjalli

Kjartan Kjartansson skrifar
Á fjórða hundrað manna hefur látið lífið í hlíðum Everest-fjalls, hæsta fjalls jarðar.
Á fjórða hundrað manna hefur látið lífið í hlíðum Everest-fjalls, hæsta fjalls jarðar. Vísir/EPA

Tveir fjallgöngumenn örmögnuðust og létust á Everest-fjalli í gær. Þetta eru fyrstu dauðsföllin á fjallinu á göngutímabilinu í vor. Metfjöldi göngumanna hefur fengið leyfi til að klífa fjallið á þessu tímabili.

Þeir Abdul Waraich, 41 árs gamall Svisslendingur, og Puwei Liu, 55 ára gamall Bandaríkjamaður, voru á leið niður fjallið þegar þá þraut örendið, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Sjerpar voru sendir á móti þeim með vistir og súrefni en komust ekki til þeirra í tæka tíð.

Waraich komst á tindinn en lést nærri syðri og lægri tindi Everest. Liu náði aldrei á tindinn og lést nærri búðum í um 7.900 metra hæð eftir að hann blindaðist í snjónum og örmagnaðist.

Nepölsk yfirvöld hafa gefið út 408 leyfi til fjallgöngumanna til að klífa Everest á göngutímabilinu sem stendur frá apríl til maí. Aldrei hafa verið gefið út jafnmörg leyfi og nú en fjallið var lokað á sama tíma í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins. Nokkur smit hafa komið upp í grunnbúðum Everest og ætla Kínverjar að grípa til þess ráðs að skilja að göngumenn sem leggja á fjallið frá Tíbet annars vegar og Nepal hins vegar af þeim sökum.

Everest er hæsta fjall jarðar, tæpir 8.849 metrar. Fleiri en sex þúsund manns hafa klifið það frá því að sjerpinn Tenzing Norgay og Nýsjálendingurinn Edmund Hillary komust á tindinn fyrstir manna árið 1953. Að minnsta kosti 311 manns hafa farist á fjallinu.

Tveir íslenskir fjallgöngumenn eru nú á Everest, þeir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson. Þeir hafa verið í hæðaraðlögun í rúman mánuð en ætlun þeirra er að komast á topp Everest til að styrkja Umhyggju, félag langveikra barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×