Viðskipti innlent

Tilkynnt um eina hópuppsögn í apríl

Eiður Þór Árnason skrifar
Almennt atvinnuleysi var 11,0% í mars samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar.
Almennt atvinnuleysi var 11,0% í mars samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar. Vísir/Vilhelm

Vinnumálastofnun barst ein tilkynning um hópuppsögn í apríl þar sem 55 starfsmönnum var sagt upp störfum í fjármála – og vátryggingastarfsemi. Uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu ágúst til nóvember 2021.

Ekki kemur fram í tilkynningu stofnunarinnar hvaða fyrirtæki um ræðir en greint var frá því í apríl að greiðslumiðlunarfyrirtækið SaltPay, sem áður bar nafnið Borgun, hafi sagt upp 55 starfsmönnum hér á landi.

Að sögn fyrirtækisins höfðu breytingarnar aðallega áhrif á starfsfólk sem vann að þróun og viðhaldi á eldra greiðslukerfi Borgunar en unnið er að því að skipta því út fyrir nýtt kerfi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var deildarstjóra sömuleiðis sagt hjá félaginu upp auk fólks í lögfræðiteymi og áhættustýringu.

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið SaltPay lauk kaupum sínum á 96% hlut í Borgun í júlí í fyrra. Síðan þá hafa minnst 107 misst vinnuna hjá fyrirtækinu en SaltPay segist einnig hafa ráðið tugi starfsmanna síðastliðið ár.

11 prósent atvinnuleysi í mars

Engar tilkynningar bárust Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í mars en tvær bárust í febrúar þar sem 287 starfsmönnum var sagt upp í verslun og flutningum.

Almennt atvinnuleysi var 11,0% í mars samkvæmt mælingum Vinnumálastofnunar og minnkaði úr 11,4% í febrúar. Atvinnuleysi mældist 11,6% í janúar og 10,7% í desember. Ekki eru komnar tölur fyrir aprílmánuð.

Með hópuppsögn er átt við uppsagnir atvinnurekanda á fastráðnum starfsmönnum þar sem fjöldi starfsmanna sem sagt er upp á þrjátíu daga tímabili er að minnsta kosti 10 starfsmenn í fyrirtækjum sem venjulega hafa 21-99 í vinnu, minnst 10% starfsmanna í fyrirtækjum með 100-299 í vinnu eða minnst 30 starfsmenn þar sem venjulega eru 300 eða fleiri.


Tengdar fréttir

Sautján þúsund án atvinnu í mars

17 þúsund einstaklingar voru atvinnulausir í mars síðastliðnum samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Jafngildir það 8,3% atvinnuleysi.

Dregur úr atvinnuleysi á milli mánaða

Almennt atvinnuleysi í febrúar var 11,4 prósent og minnkaði um 0,2 prósentustig frá því í janúar þegar það mældist 11,6 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×