Viðskipti innlent

387 störfuðu að jafnaði hjá þeim fyrir­­­tækjum sem urðu gjaldþrota

Eiður Þór Árnason skrifar
Tilkynnt hefur verið um færri gjaldþrot það sem af er ári en á sama tíma í fyrra.
Tilkynnt hefur verið um færri gjaldþrot það sem af er ári en á sama tíma í fyrra. Vísir/Hanna

Samtals voru 149 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins tekin til gjaldþrotaskipta í mars. Af þeim voru 25 með launþega í fyrra samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 36% fækkun frá mars 2020.

Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Af 290 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta ársfjórðungi 2021 voru 49 með virkni árið á undan sem er 50% fækkun frá sama tímabili árið 2020 þegar þau voru 98.

Þar af voru tíu í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (72% fækkun), sex í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (71% fækkun), 12 í einkennandi greinum ferðaþjónustu (20% fjölgun) og 21 í öðrum atvinnugreinum (32% fækkun).

Áhrif gjaldþrota meiri í fyrra

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta ársfjórðungi 2021, það er janúar til mars, höfðu um 387 launamenn að jafnaði árið áður. Er það um 57% fækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2020 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja voru 897, að sögn Hagstofunnar.

Mælt í fjölda launafólks á fyrra ári voru áhrif gjaldþrota á fyrsta ársfjórðungi 2021 minni en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum atvinnugreinaflokkum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var launafólk á fyrra ári til dæmis um 88 sem er 72% fækkun frá sama tímabili 2020 og í einkennandi greinum ferðaþjónustu var fjöldinn um 84 eða 36% færri.

Tölur um gjaldþrot fyrir síðasta mánuð eru bráðabirgðatölur og eru birtar með fyrirvara um nýjar upplýsingar um gjaldþrotabeiðnir frá dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×