Íslenski boltinn

Æfinga­leikur KR og ÍA flautaður af

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR var 3-0 yfir þegar leikurinn var flautaður af.
KR var 3-0 yfir þegar leikurinn var flautaður af. Vísir/Bára Dröfn

Samkvæmt heimildum Vísis var æfingaleikur KR og ÍA flautaður af þar sem mönnum var orðið það heitt í hamsi að ekki var hægt að halda leiknum áfram. 

KR og ÍA mættust á Meistaravöllum í Vesturbæ Reykjavíkur í dag. Um er að ræða síðasta æfingaleik liðanna fyrir Pepsi Max-deild karla sem hefst í næstu viku. Staðan var 3-0 KR-ingum í vil og aðeins rúmur stundarfjórðungur lifði leiks þegar allt sauð upp úr. 

Samkvæmt heimildum Vísis ku leikmaður ÍA hafa farið í glæfralegar tæklingar með sólann á undan sér reglulega í leiknum. Þegar það voru fimmtán mínútur til leiksloka sauð upp úr og ku téður leikmaður hafa sparkað í mann og annan. 

Ákvað dómari leiksins - Þórður Már Gylfason - því einfaldlega að flauta leikinn af þar sem leikmönnum beggja liða var orðið mjög heitt í hamsi og illa gekk að róa mannskapinn niður.

Þann 30. maí næstkomandi mætast liðin að nýju á Meistaravöllum í Pepsi Max deildinni og búast má við hörkuleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×