Erlent

Þverpólitískur stuðningur við bann gegn eign einkaaðila á stórum kattardýrum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talið er að um 7.000 tígrisdýr séu í haldi í Bandaríkjunum en 3.890 frjáls annars staðar í heiminum.
Talið er að um 7.000 tígrisdýr séu í haldi í Bandaríkjunum en 3.890 frjáls annars staðar í heiminum.

Fjórir öldungadeildarþingmenn hafa lýst yfir stuðningi við frumvarp sem leggur bann við því að stórum kattardýrum sé haldið í einkaeigu. Frumvarpið leggur einnig bann við aðgengi almennings að afkvæmum stórra kattardýra.

Frumvarpið, sem ber yfirskriftina Big Cat Public Safety Act, var samþykkt í fulltrúadeild bandaríska þingsins í desember síðastliðnum með 272 atkvæðum gegn 114.

Verndunarsamtökin American Welfare Institute þakkar Netflix-þáttunum Tiger King vitundarvakningu um aðbúnað og meðferð stórra kattardýra en fleiri tígrisdýr eru í haldi í Bandaríkjunum en frjáls annars staðar í heiminum.

Stuðningsmenn frumvarpsins í öldungadeildinni eru demókratarnir Richard Blumenthal og Tom Carper og repúblikanarnir Susan Collins og Richard Burr.

Blumenthal segir lögin myndu leiða til þess að misnotkun á dýrunum yrði stöðvuð og draga úr áhættunni á hættulegum slysum. Sagði hann kettina verðskulda að lifa frjálsir og að það ætti aldrei að halda þá sem gæludýr eða afþreyingu.

Dýragarðar yrðu undanskildir lögunum, sem myndu ná til ljóna, tígrisdýra, hlébarða, blettatígra, jagúara, fjallaljóna og allra blendinga fyrrnefndra tegunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×