Innlent

Tveir íslenskir hestar felldir vegna skæðrar veiru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tveir íslenskir hestar í Þýskalandi voru felldir vegna veirunnar.
Tveir íslenskir hestar í Þýskalandi voru felldir vegna veirunnar. Vísir/Vilhelm

Skæð herpesveira sem herjað hefur á hesta í Evrópu hefur greinst í íslenskum hestum á að minnsta kosti fjórum búgörðum í Þýskalandi. Þurft hefur að fella tvo íslenska hesta vegna sjúkdómsins sem veiran veldur, að því er fram kemur í tilkynningu Landssamtaka íslenska hestsins í Þýskalandi.

Eiðfaxi greindi fyrst frá. Sigríður Björnsdóttir dýralæknir segir að þetta hafi talsverða þýðingu fyrir íslenskt hestasamfélag.

„Íslenska hestasamfélagið er í gríðarlega miklum tengslum við hið alþjóðlega, þar á meðal í Þýskalandi, ekki síst, og það er ákveðin hætta á að þessi herpesveira geti borist til landsins með ferðum fólks, ef það gætir sín ekki nógu vel að fylgja öllum þeim ströngu reglum sem við erum með.“

Bannað er að flytja lifandi hesta til landsins. 

„En notaðan búnað er líka bannað að flytja til landsins og allan fatnað og skófatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hesta þarf að hreins og sótthreinsa eftir tilteknum reglum.“

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun.Aðsend

Þetta gæti haft áhrif á mótahald íslenska hestsins erlendis.

„Það hefur verið bann við mótahaldi þar undanfarið við þessum faraldri sem gengur þar. Þetta er fyrst og fremst í öðrum hestakynjum en auðvitað var þess að vænta að það gæti borist þannig í íslenska hestinn þarna úti því íslenski hesturinn er ekki haldinn aðskilinn frá öðrum hestakynjum,“ segir Sigríður.

„Það getur haft áhrif. Það er heldur verið að létta á mótahaldinu en á móti kemur að þessi faraldur hefur leitt vel í ljós hversu samþjöppun hrossa á mótasvæðum er gríðarlega hættuleg þegar kemur að hættunni á smitsjúkdómum, þannig að til lengri tíma getur þetta allt haft áhrif.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×