Innlent

Haf­dís Hrönn vill þriðja sætið á lista Fram­sóknar

Atli Ísleifsson skrifar
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir lögfræðingur hefur tilkynnt að hún sækist eftir þriðja sætinu á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi fyrir komandi þingkosningar sem fram fara í september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafdísi Hrönn þar sem hún segist gera þetta eftir mikla hvatningu og að vel ígrunduðu máli.

„Við hjónin erum búsett á Selfossi ásamt tveimur dætrum okkar. Ég starfa sem lögfræðingur. Er stjórnarformaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og hef lagt mitt af mörkum fyrir Kvennaráðgjöfina þar sem ég hef sinnt lögfræðiráðgjöf og sit í umboði hennar í verkefnastjórn Sigurhæða – þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Suðurlandi.

Undanfarin ár hef ég lagt mitt af mörkum fyrir Framsókn í Árborg þar sem ég hef kynnst mikið af öflugu fólki sem lætur sig samfélagið varða. Ég er stolt af því að vera kona í Framsókn og er stolt af því flotta starfi sem flokkurinn hefur verið skilað af sér. Allt gott má bæta og vil ég leggja mitt af mörkum og styðja við áframhaldandi framsókn á komandi kjörtímabili.

Málefnin eru mörg og fjölbreytt, þau sem vilja kynna sér áherslur mínar endilega kíkið inná www.hafdishronn.is. Það sem ég tel vera mest aðkallandi fyrir okkur í Suðurkjördæmi núna er að við blásum til sóknar í atvinnumálum,“ segir Hafdís Hrönn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×