Erlent

Fresta fyrsta þyrlufluginu á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Ingenuity á Mars. Þyrilvængjan er aðeins um 1,8 kíló. Engin vísindatæki eru um borð heldur er vængjan aðeins tæknileg tilraun til að kanna flugaðstæður á Mars. Í forgrunni á myndinni er slóð eftir könnunarjeppann Perseverance sem fóstraði Ingeunity á leiðinni frá jörðinni.
Ingenuity á Mars. Þyrilvængjan er aðeins um 1,8 kíló. Engin vísindatæki eru um borð heldur er vængjan aðeins tæknileg tilraun til að kanna flugaðstæður á Mars. Í forgrunni á myndinni er slóð eftir könnunarjeppann Perseverance sem fóstraði Ingeunity á leiðinni frá jörðinni. NASA/JPL-Caltech/ASU

Ákveðið hefur verið að fresta fyrstu tilraunaflugferð þyrilvængjunnar Ingenuity á reikistjörnunni Mars. Til stóða að fljúga henni í fyrsta lagi í dag en eftir að hnökrar komu í ljós við undirbúning á föstudag var ákveðið að seinka því.

Ingenuity er lítil þyrilvængja sem ferðaðist á kviði könnunarjeppans Perseverance sem lenti á Mars í febrúar. Eini tilgangur hennar er að kanna hvort að hægt sé að fljúga farartæki í næfurþunnum lofthjúpi rauðu reikistjörnunnar.

Þegar verkfræðingar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA prófuðu þyril Ingeunity á fullum snúningi á föstudag kom upp villa þegar vængjan átti að fara úr undirbúningi fyrir flug í flugham. Tilraunin var því stöðvuð fyrr en ætlað var.

Verkfræðingar Ingenuity á jörðu fara nú yfir gögn frá geimfarinu til að greina vandamálið. Nú er stefnt að því að fara í fyrstu flugferð farartækis á öðrum hnetti í fyrsta lagi miðvikudaginn 14. apríl, að því er segir í tilkynningu á vef NASA.

Perseverance slakaði Ingenuity niður á litlum „flugvelli“ á yfirborði Mars 30. mars.NASA/JPL-Caltech/MSSS

Tengdar fréttir

Búa sig undir fyrsta þyrluflugið á öðrum hnetti

Undirbúningur fyrir fyrsta flug þyrilvængjunnar Ingenuity á Mars er nú í fullum gangi. Flygildið var losað undan könnunarjeppanum Perseverance um helgina og stefnt er að fyrstu flugferðinni á sunnudag. Það verður fyrsta farartæki manna sem flýgur á annarri reikistjörnu undir eigin afli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×