Erlent

Banna meðferð fyrir transbörn

Kjartan Kjartansson skrifar
Asa Hutchinson, ríkisstjóri, synjaði lögunum staðfestingar eftir að hafa rætt við barnalækna og félagsráðgjafa. Flokksbræður hans hunsuðu vilja hans.
Asa Hutchinson, ríkisstjóri, synjaði lögunum staðfestingar eftir að hafa rætt við barnalækna og félagsráðgjafa. Flokksbræður hans hunsuðu vilja hans. AP/Tommy Metthe/Arkansas Democrat-Gazette

Ríkisþing Arkansas í Bandaríkjunum ógilti neitunarvald ríkisstjórans og samþykkti bann við læknismeðferð fyrir transbörn í ríkinu. Með lögunum verður læknum bannað að veita transbörnum yngri en átján ára hormónameðferð eða skera þau upp.

Asa Hutchinson, ríkisstjóri Arkansas, beitti neitunarvaldi sínu gegn frumvarpi flokksbræðra sinna í Repúblikanaflokknum og lýsti því sem of freku inngripi ríkisvalds. Nokkur samtök lækna og barnaverndar, þar á meðal Barnalæknasamtök Bandaríkjanna, lögðust gegn banninu, að sögn AP-fréttastofunnar.

Repúblikanar eru aftur á móti með afgerandi meirihluta í báðum deildum ríkisþingsins og gátu þeir ógilt neitunarvald Hutchinson.

Þegar þingmennirnir gerðu það varð Arkansas fyrsta ríki Bandaríkjanna til þess að banna læknismeðferð fyrir transbörn. Réttindasamtök hafa varað við því að bannið svipti ungt fólk aðstoð sem það þarf nauðsynlega á að halda og að það muni leiða til fleiri sjálfsvíga. Þau ætla að láta reyna á lögmæti laganna fyrir dómstólum. Lögin taka ekki gildi fyrr en í fyrsta lagi í lok júlí.

Reuters-fréttastofan segir að í það minnsta sextán ríki þar sem íhaldssamir repúblikanar ráða ríkjum íhugi nú sambærileg frumvörp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×