Innlent

Segist ekki vera að hugsa um að rukka aðgangseyri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Gísli Grétar Sigurðsson frá Hrauni við Grindavík er einn af landeigendum Geldingadala.
Gísli Grétar Sigurðsson frá Hrauni við Grindavík er einn af landeigendum Geldingadala. Arnar Halldórsson

Einn af eigendum Geldingadala segir ekki standa til að rukka aðgangseyri að eldgosinu. Hann sér hins vegar eftir gróðurlendinu sem farið er undir hraun.

Eldgosið er orðið vinsælasti ferðamannastaður á Íslandi en landið tilheyrir jörðinni Hrauni við Grindavík. Í fréttum Stöðvar 2 var Gísli Grétar Sigurðsson spurður hvort þeir ættu þá eldstöðina:

„Við eigum landið, allavegana. En hvort menn vilja deila um það hvað við eigum langt niður.. - erum við ekki að tala um að þetta sé á tuttugu kílómetra dýpi sem þetta byrjar. Það er spurning hver á það þar.“

Eldgosið dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna.KMU

-Þið sem landeigendur, þið ætlið ekki að fara að rukka aðgangseyri?

„Nei. Þú ert nú ekki sá fyrsti sem spyr að því. Nei, það er nú ekki kannski akkúrat það sem maður er að hugsa um þessa dagana. Það er nú aðallega verið að reyna að koma til móts við fólk sem langar að sjá þetta.“

Gígarnir og hraunið að morgni laugardagsins 20. mars þegar gosið hafði staðið í hálfan sólarhring.Egill Aðalsteinsson

Gísli Grétar hvetur fólk samt til að bera virðingu fyrir landinu.

„Það er raunverulega mesta áhyggjuefni okkar í dag; að ósnortið land verði þarna allt útspólað, mosi og annað sem tekur áratugi að jafna sig. Ef það jafnar sig nokkurn tímann.“

Gísli var sjálfur níu ára gamall þegar hann fékk fyrst að fara með sér eldri mönnum að smala Geldingadali. Fyrir helgi sagði hann frá því að gosið væri þar sem dys Ísólfs landnámsmanns var.

„Það var bara alltaf talað um að þarna væri Ísólfur. Þegar við vorum að smala þarna þá kölluðu þeir alltaf - buðu karlinum góðan daginn þegar var farið framhjá. Það var oft tekið þarna nestið sitt og annað þarna rétt hjá þegar við vorum að fara.“

Á fyrsta sólarhring eldgossins mátti enn sjá gróðurþekjuna í dalbotninum.Sigurjón Ólason

En rifjum upp myndir frá fyrsta sólarhring gossins en þá sáum við hraunið eyðileggja gróður í dalbotninum. Það rann yfir gróðurþekju og brenndi grasið og var lyktin eins og af sinubruna. Núna er allur dalbotninn þakinn hrauni.

„Það er eftirsjá af öllum gróðri. En það kemur vonandi annað í staðinn, að þetta grói upp. Því einhvern tímann hættir þetta vonandi,“ segir Gísli Grétar Sigurðsson, frá Hrauni við Grindavík.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Landeigandi segir jarðeldana hafa komið upp í haugi Ísólfs

Einn af landeigendum Geldingadala segir eldgosið hafa komið upp á haugi Ísólfs landnámsmanns og því sé alveg eins gott að kenna eldstöðina við Ísólf. Verið er að bæta göngu- og akstursleiðir að svæðinu en veðurspá helgarinnar er hins vegar afleit.

Löng bílaröð á slóðum gossins

Fallegt veður er á suðvesturhorninu í dag og greinilega fjölmargir sem ætlað að nota daginn til að heimsækja gösstöðvarnar við Fagradalsfjall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×