Erlent

Danir gera eins og Svíar og hætta að tala um „Hvíta-Rúss­land“

Atli Ísleifsson skrifar
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, segir að með málinu sé verið að styðja þau friðsömu mótmæli sem verið hafa í landinu með táknrænum hætti.
Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, segir að með málinu sé verið að styðja þau friðsömu mótmæli sem verið hafa í landinu með táknrænum hætti. EPA/Emil Helms

Utanríkisráðuneyti Danmerkur hefur greint frá því að hætt verði að notast við nafnið Hvíta-Rússland, það er Hviderusland, og að framvegis verði notast við nafnið Belarus um landið. Er það gert eftir óskir frá stjórnarandstöðunni í landinu.

„Það er kominn tími til að við notumst við það nafn sem belarússíska samfélagið og þjóðin óskar eftir,“ segir utanríkisráðherrann Jeppe Kofod á Twitter. 

Hann segir breytinguna sömuleiðis vera táknrænan stuðning við þau friðsamlegu mótmæli sem hafa verið í landinu síðustu mánuði og beinst gegn forsetanum Aleksander Lúkasjenkó.

Sænsk stjórnvöld ákváðu árið 2019 að hætta notkuninni á „Vitryssland“ og taka þess í stað upp notkun á nafninu „Belarus“.

Norski utanríkisráðherrann Ine Eriksen Søreide tilkynnti hins vegar í febrúar síðastliðinn að norsk stjórnvöld myndu áfram notast við nafnið Hviterussland.

Meðal þeirra raka sem hafa verið lögð fram með því að taka upp notkun á nafninu „Belarús“ er að koma í veg fyrir þann misskilning að landið sé hluti af Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×