Körfubolti

Sævaldur tekur við Haukaliðinu af Israel Martín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sævaldur Bjarnason var aðstoðarþjálfari Haukaliðsins en mun nú taka við liðinu.
Sævaldur Bjarnason var aðstoðarþjálfari Haukaliðsins en mun nú taka við liðinu. S2 Sport

Sævaldur Bjarnason verður nýr þjálfari Hauka í Domino´s deild karla í körfubolta og mun taka við liðinu af Spánverjanum Israel Martín.

Samkvæmt heimildum Vísis þá verður Sævaldur aðalþjálfari liðsins en hann fær síðan tvo Haukamenn með sér til aðstoðar. Þar hafa verið nefndir þeir Steinar Aronsson og Kristinn Jónasson sem báðir spiluðu með Haukum á sínum tíma.

Haukar létu Israel Martín fara eftir tapleikinn á móti Þór á sunnudagskvöldið en eftir þann leik eru Haukarnir komnir í slæm mál á botni deildarinnar. Það þarf því hálfgert kraftaverk til að bjarga liðinu frá falli úr þessu.

Sævaldur var aðstoðarmaður Israel Martín og þekkir því vel til leikmannahópsins. Hann fær hins vegar ekki langan tíma til að undirbúa liðið fyrir næsta leik en Haukarnir taka á móti Grindavík á Ásvöllum annað kvöld.

Sævaldur hefur áður tekið við Domino´s deildarliði á miðri leiktíð en hann tók við Blikaliðinu af Hrafni Kristjánssyni í lok 2009-10 tímabilsins. Blikar unnu bara 2 af 14 leikjum undir stjórn Hrafns það tímabil en unnu 3 af 8 síðustu leikjum sínum undir stjórn Sævaldar og Guðna Hafsteinssonar sem var með honum.

Sævaldur hefur þjálfað kvennalið Fjölnis og hann kom kom kvennaliði Stjörnunnar upp í efstu deild í fyrsta sinn vorið 2015. Hann er nú aðalþjálfari átján ára landsliðs kvenna. Árið 2019 kláraði Sævaldur FECC FIBA prófið sem er hæsta gráða FIBA í þjálfun en þar fyrir utan er Sævaldur búinn að sitja fjölmörg námskeið sem tengjast körfubolta- eða hugarþjálfun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×