Erlent

Ætla að framleiða rússneska bóluefnið á Ítalíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Skammtar af rússneska bóluefninu Spútnik V í Íran.
Skammtar af rússneska bóluefninu Spútnik V í Íran. AP/Saeed Kaari/KAC

Rússar hafa gert samkomulag um að framleiða Spútnik V-bóluefni sitt við kórónuveirunni á Ítalíu, fyrsta samninginn þess efnis í Evrópu. Lyfjastofnun Evrópu hefur hvatt Evrópusambandsríki til að veit ekki leyfi fyrir rússneska bóluefninu í bili.

Samningurinn er við Adienne Srl, ítalskt dótturfyrirtæki svissneska lyfjafyrirtækisins. Rússneski fjárfestingarsjóðurinn fjármagnar bæði þróun bóluefnisins og markaðssetningu þess erlendis. Framleiðslan á Ítalíu á að hefjast í júlí og er stefnt að því að framleiða allt að tíu milljónir skammta á þessu ári, að sögn AP-fréttastofunnar.

Rússneska bóluefninu hefur ekki verið tekið fagnandi í Evrópu fram að þessu. Christa Wirthumer-Hoche, stjórnarformaður Lyfjastofnunar Evrópu, sagði um helgina að hún réði Evrópusambandslöndum að veita Spútnik V-bóluefninu ekki neyðarheimild fyrr en stofnunin hefur náð að staðfesta öryggi þess og virkni.

Framleiðendur bóluefnisins hafa krafist opinberrar afsökunarbeiðni vegna ummæla Wirthumer-Hoche.

Spútnik V hefur fengið grænt ljós í 46 löndum, þar á meðal Indlandi, Suður-Kóreu, Brasilíu, Kína, Tyrklandi og Íran. Evrópusambandsríkin Ungverjaland, Slóvakía og Tékkland hafa þegar veitt bóluefninu leyfi eða hafa umsókn þess efnis til meðferðar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Bólusetningar gegn kórónuveirunni hafa gengið hægt fyrir sig í Evrópu. Ítölsk stjórnvöld stöðvuðu útflutning á bóluefni AstraZeneca sem var framleitt þar til Ástralíu í síðustu viku. Það var í fyrsta skipti sem Evrópuríki beitti útflutningshömlum á bóluefni sem ESB kom á vegna deilna þess við AstraZeneca um afhendingu bóluefnis.


Tengdar fréttir

Ítalir stöðvuðu sendingu á bóluefni til Ástralíu

Stjórnvöld á Ítalíu komi í veg fyrir að 250.000 skammtar af bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni sem voru framleiddir þar í landi yrðu fluttir til Ástralíu. Ákvörðunin nýtur stuðnings framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og byggir á nýjum reglum sem leyfa ríkjum að stöðva útflutning á bóluefni ef framleiðendur þess hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sambandinu.

Sputnik V með um 92 prósent virkni

Rússneska bóluefnið Sputnik V veitir tæplega 92 prósenta vörn gegn kórónuveirunni. Þetta er niðurstaða prófana sem sagt er frá í læknaritinu Lancet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×