Körfubolti

Sjáðu þegar lukkudísirnar voru með Stjörnumönnum fyrir austan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Austin James Brodeur skoraði sigurkörfu Stjörnumanna í leiknum fyrir austan í gær.
Austin James Brodeur skoraði sigurkörfu Stjörnumanna í leiknum fyrir austan í gær. Vísir/Hulda Margrét

Stjörnumenn sluppu með skrekkinn á móti skeinuhættu liði Hattar í Domino´s deildinni í gærkvöldi og þjálfari Garðabæjarliðsins var sammála því.

Stjarnan vann í gær 94-93 sigur á Hetti á Egilsstöðum í þrettándu umferð Domino´s deild karla í körfubolta. Hattarmenn misstu Bandaríkjamann sinn meiddan af velli en voru engu að síður grátlega nálægt sigri á móti stjörnuprýddu liði gestanna úr Garðabænum.

Hattarmenn fengu síðustu sókn og síðasta skot leiksins og boltinn var í höndunum á heitasta leikmann vallarins á úrslitastundu.

Matej Karlovic skoraði 27 stig í leiknum og var búinn að hitta úr 10 af 15 skotum sínum fyrir lokasóknina.

Skotið hans rataði ekki rétta leið og Stjörnumenn fögnuðu því naumum sigri. Sigurkörfuna skoraði Bandaríkjamaðurinn Austin James Brodeur í sókninni á undan.

„Við völdum stutt kerfi því við héldum að þeir myndu brjóta á okkur en við fengum skotið og fórum í það en skildum eftir tækifæri fyrir þá. Matej var búinn að vera stórkostlegur og ég hafði miklar áhyggjur þegar ég sá hann fá boltann, því ég var sannfærður um að hann myndi skora. Sem betur fer fyrir okkur en því miður fyrir Hattarmenn lukkaðist það ekki,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar við Vísi eftir leikinn.

Hér fyrir neðan má sjá þessar lokasóknir liðanna í leiknum í gær.

Klippa: Lokasóknirnar úr leik Hattar og Stjörnunnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×