Um­fjöllun og við­töl: Höttur - Stjarnan 93-94 | Stjarnan marði Hött með einu stigi

Gunnar Gunnarsson skrifar
Hlynur og félagar unnu nauman sigur á Egilsstöðum í kvöld.
Hlynur og félagar unnu nauman sigur á Egilsstöðum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan hafði betur gegn Hetti 94-93 í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðin mættust á Egilsstöðum í kvöld. Liðin skiptust á forskotinu á lokasekúndunum og réðust úrslitin þegar flautuskot Hattar skoppaði upp af hringnum.

Leikurinn í kvöld var hraður og skemmtilegur frá byrjun eins og sú staðreynd að sextán sinnum skiptust liðin á forustu og níu sinnum var jafnt ber með sér. Bæði lið, einkum þó Stjarnan, spiluðu snarpar sóknir og skutu mikið en eftir fyrsta leikhluta voru gestirnir yfir, 22-25.

Höttur varð fyrir áfalli strax á þriðju mínútu þegar Bandaríkjamaðurinn, Michael Mallory, snéri sig á ökkla þegar hann lenti eftir að hafa skorað sína þriðju körfu og kom ekki meira við sögu. Aðrir leikmenn stigu hins vegar upp í hans fjarveru, einkum Matej Karlovic, sem varð að lokum stigahæstur á vellinum með 27 stig.

Matej og Bryan Alberts, sem í kvöld spilaði sinn fyrsta heimaleik fyrir Hött, fóru mikinn í öðrum leikhluta og skoruðu yfir tíu stig hvor. Hattarliðið sýndi frábæra takta þegar hálfleikurinn fór að nálgast, raðaði niður skotunum og fór með 52-45 forskot inn í leikhléið.

Stjarnan var skrefinu á eftir í þriðja leikhluta en tókst tvisvar að jafna, í 59-59 og svo 71-71, sem var staðan þegar leikhlutanum lauk.

Höttur var með forskot eftir þrjár mínútur í fjórða leikhluta, en þá kom Ægir Þór Steinarsson inn eftir hvíld og það var hann, öðrum fremur, sem gerðu út um leikinn með að skora 12 stig í leikhlutanum. Hvað eftir annað tók hann á rás í gegnum Hattarvörnina að körfunni. Liðsfélagar hans fylgdu eftir með þéttri vörn sem þvingaði Hött í síðbúin og erfið skot. Þannig tókst gestunum að ná forustunni.

Þegar mínúta var eftir af leiknum hafði Stjarnan fimm stiga forskot, 87-92 og lagði af stað í sókn en missti boltann. Höttur átti nokkuð langa sókn uns boltinn fór niður í hornið á Alberts sem setti þriggja stiga skot og minnkaði muninn í 90-92.

Stjörnuliðið fór af stað og sem oftar spólaði Ægir Þór sig í gegnum en loks var komið að því hann geigaði. Hattarmenn náðu boltanum, aftur fór boltinn upp til hægri á Alberts sem setti niður þriggja stiga körfu og heimamenn fögnuðu nánast sem sigurinn væri kominn.

Stjörnumenn tóku leikhlé og hófu leik að nýju með innkasti þegar 6,7 sekúndur voru eftir. Boltinn barst strax inn á teiginn til Austin Broeur sem tróð sér fram fyrir Sigurð Gunnar Þorsteinsson og náði skoti ofan í.

Höttur hóf sókn þegar fimm sekúndur voru eftir og boltinn barst til Matej sem hafði gott svæði til að skjóta utarlega í teignum. Að þessu sinni brást honum hins vegar bogalistin, boltinn skoppaði upp af hringnum og stigin tvö fara í Garðabæ.

Af hverju vann Stjarnan?

Ægir Þór Steinarsson réðist eiginlega einn að Hattarvörninni í síðasta leikhluta og skoraði 12 af 23 stigum, en hann varð stigahæstur Stjörnunnar með 23 stig auk þess að gefa 11 stoðsendingar. Vörnin fylgdi á eftir. Og svo var það eilítil heppni, eins og gerist þegar einu stigi munar.

Hvað gekk vel?

Heilt yfir gekk sóknarleikur beggja liða vel. Planið sem Höttur lagði upp með virtist ganga upp og sem fyrr segir raðaði liðið niður skotum í öðrum leikhluta. Þetta er kannski sérstaklega merkilegt fyrir þær sakir að liðið spilaði án Mallory, sem svo gjarnan hefur dregið sóknarleikinn, í nær allt kvöld.

Hvað gekk illa?

Höttur virtist eiga svör við öllu í leik Stjörnunnar, nema sprettu Ægis Þórs í lokaleikhlutanum. Stjörnumenn hefðu örugglega þegið betri sóknarnýtingu, en það er vart hægt að segja hún hafi verið slæmt.

Hvað næst?

Stjarnan heldur sér í toppbaráttunni, er í öðru sæti eftir leiki kvöldsins og fær Grindavík, sem átt hefur erfitt uppdráttar í síðustu leikjum, í heimsókn á fimmtudag.

Sigur Þórs Akureyri á Grindvíkingum þýðir að Þórsarar hafa á ný náð Hetti og Val að stigum í miklum slag milli falls og úrslitakeppni. Höttur heimsækir ÍR næst.

Ægir Þór Steinarsson fór mikinn í fjórða leikhluta í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Ægir Þór: Fylgdi í fótspor Dúa

Ægir Þór Steinarsson fór fyrir liði Stjörnunnar undir lok leiksins í kvöld. Hann hrósaði hins vegar hinum tvítuga Dúa Þór Jónssyni fyrir að hafa sýnt leiðina í gegnum Hattarvörnina. Ægir skipti við Dúa þegar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhlutanum.

„Hann fær stórt kúdos. Mér fannst hann finna leiðir að körfunni og ég ákvað að fylgja hans fordæmi. Dúi setti stórar körfur allan leikinn og sýndi okkur hvernig á að gera þetta.

Mér fannst Hattarvörnin opnast aðeins í lokin og hjálparvörnin var ekkert sérstök. Fram að því hafði hún lokað þessum leiðum einstaklega vel. Þetta var ótrúlega skemmtilegur leikur að spila, einkum með áhorfendum. Við njótum þess að hafa þá meðan hægt er.“

Síðustu sekúndurnar voru afar spennandi, Hattarmenn áttu síðasta skotið en að mati Ægis þurftu þær ekki að verða þetta æsilegar.

„Okkur leið frekar illa í lokin því við höfðum verið með 5 stiga forskot þegar 50 sekúndur voru eftir og með boltann í höndunum. Það á ekki að gerast við slíkar aðstæður að við töpum boltanum á miðjum vellinum, heldur sigla þessu heim. Við ákváðum hins vegar að gera þetta skemmtilegt.“

Viðar Örn: Við erum fokking góðir

Viðar Örn Hafsteinson, þjálfari Hattar var súr með úrslitin en ánægður með leik síns liðs í 93-94 tapi gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Hattarliðið var án Bandaríkjamannsins Michael Mallory nær allan leikinn en hann meiddist snemma.

„Við erum bara fokking góðir og því er drullusvekkjandi að tapa. Frammistaðan hér í kvöld var góð og ég hrósa mínum mönnum fyrir hana, þótt hún hafi ekki dugað gegn besta liði landsins. Mike byrjaði af krafti og kveikti í okkur en snéri sig á ökkla þegar hann lenti eftir skot.

Við spilum því lengst af án hans en leikum sóknarleikinn mjög vel og töpum ekki nema átta boltum. Við gerum líka vel á þeim köflum sem þeir reyna að byggja upp stemmingu og hraða. Þetta ræðst bara á sigurkörfunni þeirra. Við klikkum svo á fínu skoti, skoti sem við ætluðum að fá.

Við verðum að halda áfram að setja saman góðar 40 mínútur og koma okkur eins ofarlega og hægt er í töflunni fyrir úrslitakeppnina. Við vitum að við erum góðir en fólk þarf að átta sig á því.“

Viðar sagði að leikur Hattarliðsins hefði að mestu gengið upp eins og hann lagði hann upp. „Við festumst aðeins fyrir utan í þriðja leikhluta þar sem við náðum ekki að brjóta varnarlínuna þeirra og komast inn á póstinn. Í Gunnar Ólafssyni og Ægi Þór Steinarssyni eru þeir með tvo bestu varnarbakverði deildarinnar og það er erfitt að sækja djúpt á þá með drippli og slíku. Þess vegna settum við upp pósta á alla okkar leikmenn í hinum ýmsu kerfum og það gekk ágætlega.

En ég er of kröfuharður ef ég ætlast til þess að mínir menn séu rótóbar. Við erum enn að læra og vonandi skilar sá lærdómur sér þegar reynir á í stóru leikjunum.“


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira