Innlent

Höllin í Grindavík skalf fyrir körfuboltaleik

Kjartan Kjartansson skrifar
Skjáskot úr upptöku Stöðvar 2 frá HS-Orkuhöllinni í Grindavík um það leyti sem jarðskjálfti skól hana fyrir leik Grindavíkur og Hattar í kvöld.
Skjáskot úr upptöku Stöðvar 2 frá HS-Orkuhöllinni í Grindavík um það leyti sem jarðskjálfti skól hana fyrir leik Grindavíkur og Hattar í kvöld. Stöð 2/skjáskot

Jarðskjálfti upp á 4,1 sem skók Grindavík í kvöld fannst vel í HS-Orku-höllina rétt áður leikur Grindavíkur og Hattar í körfubolta hófst á áttunda tímanum í kvöld. Titringurinn náðist greinilega á mynd í útsendingu Stöðvar 2 frá höllinni. Upptökuna má sjá neðst í fréttinni.

Veðurstofa Íslands segir að skjálftinn hafi fundist mjög vel í Grindavík og á höfuðborgarsvæðinu. Lýsandi í textalýsingu Vísis var á sama máli.

„Vó! Það kom heldur betur skjálfti og það í stærra laginu. Það sló þögn á mannskapinn í húsinu í 2-3 sekúndur og ég er ekki frá því að þetta hafi aðeins hrist upp í fólki,“ skrifaði hann í textalýsinguna klukkan 19:16 í kvöld.

Upptök jarðskjálftans voru um tvo kílómetra norður af Grindavík. Nokkrir aðrir skjálftar mældust í Fagradalsfjalli á sama tíma. Mikil skjálftahrina hefur staðið yfir á Reykjanesskaga frá því í síðustu viku. Vísindaráð almannavarna telur að gera þurfi ráð fyrir möguleikanum á eldgosi á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×