Íslenski boltinn

Bubbi spenntur fyrir því að mæta í Frosta­skjólið í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bubbi er spenntur fyrir því að mæta á KR-völlinn í sumar.
Bubbi er spenntur fyrir því að mæta á KR-völlinn í sumar. Vísir/Vilhelm

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens stefnir á að mæta á KR-völlinn í sumar og sjá KR spila í Pepsi Max deildinni. Bubbi er að flytja á Seltjarnarnesið á nýjan leik og ætlar sér að endurnýja kynnin við KR.

Þetta kom fram í útvarpsþættinum Harmageddon á X977 í dag. Viðtalið við Bubba má heyra hér að neðan.

Bubbi hefur verið búsettur í Kjósinni en heldur nú aftur á Seltjarnarnesið þar sem hann bjó áður. Bubbi hefur verið gallharður KR-ingur í fleiri áratugi og gerði hið margrómaða KR lag sem ómað hefur um land allt alla tíð síðan.

„Ég er kominn heim aftur, KR er við hornið hjá mér. Ég get ekki beðið eftir því að mæta á vorleiki á KR-vellinum. Ég hef saknað þess mikið og ég ætla að taka stelpurnar mínar með mér. Það er gaman að eiga börn og fara á fótboltaleiki. Það er stemning, pulsur og gleði,“ sagði Bubbi í viðtali dagsins.

„Ég sagði við strákana mína þegar við fórum á KR leiki að við færum fullir af gleði og ef við töpuðum þá skiljum við vonbrigðin eftir upp í stúku,“ bætti hann við.

Eins og áður sagði á Bubbi eitt frægasta stuðningsmannalag Íslandssögunnar. Hann viðurkenndi þó að hann hefði á sínum tíma samið lag fyrir FH en það ku ekki vera hægt að finna það á veraldarvefnum né annarsstaðar.

„Það er til FH lag sem ég samdi. Ég fékk skammir fyrir það og lagið er í felum. Ég flutti það aðeins einu sinni fyrir FH-inga,“ sagði Bubbi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×