Fótbolti

Boris styður að Bretland og Írland haldi HM saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Englendingar hafa aðeins haldið HM í fótbolta einu sinni og það var árið 1966. Þá vannst líka eini heimsmeistaratitill Englendinga.
Englendingar hafa aðeins haldið HM í fótbolta einu sinni og það var árið 1966. Þá vannst líka eini heimsmeistaratitill Englendinga. Getty/Aaron Chown

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, segir að nú sé rétti tíminn fyrir Bretland og Írland til að halda saman heimsmeistarakeppnina í fótbolta. Þjóðirnar gætu sent inn sameiginlegt framboð um að fá að halda HM 2030.

Boris gerir meira en bara að senda frá sér stuðningsyfirlýsingu því bresk stjórnvöld eru búin að lofa 2,8 milljónum punda í verkefnið í nýjasta fjárlagafrumvarpi sínu.

Knattspyrnusambönd Englands, Wales, Skotlands, Norður-Írlands og Írlands fagna skuldbindingu bresku ríkisstjórnarinnar.

„Við erum mjög, mjög spennt fyrir því að fá fótboltann heim árið 2030,“ sagði Boris Johnson í viðtali sem BBC hefur eftir Sun. The Athletic fjallar líka um málið.

„Ég held að þetta sé rétti tíminn og þetta yrði algjörlega yndislegt fyrir þjóðina,“ sagði Boris.

48 þjóðir verða í fyrsta sinn á HM þegar Bandaríkin, Kanada og Mexíkó halda keppnina árið 2026. Árið 2030 verða liðin hundrað ár frá fyrstu heimsmeistarakeppninni í fótbolta.

Sameiginlegt framboð frá Síle, Argentínu, Paragvæ og Úrúgvæ er líklegt sem og sameiginlegt framboð frá Spáni, Portúgal og Marokkó. Úrúgvæ hélt fyrstu heimsmeistarakeppnina árið 1930.

Boris Johnson talaði einnig um að Bretar væri tilbúnir að taka við fleiri leikjum á Evrópumótinu í sumar en EM átti að fara fram í tólf borgum víðs vegar um Evrópu. Kórónuveiran gæti breytt þeim áætlunum og hefur England verið nefnt sem góður kostur til að halda alla keppnina á einum stað. Undanúrslitin og úrslitaleikurinn fara fram á Wembley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×