Fótbolti

Fyrrum forseti Barcelona handtekinn og húsleit á Nývangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josep Maria Bartomeu hætti sem forseti Barcelona í lok október eða áður en kjörtímabil hans rann út.
Josep Maria Bartomeu hætti sem forseti Barcelona í lok október eða áður en kjörtímabil hans rann út. Getty/Etsuo Hara

Það gekk mikið á hjá Barcelona í morgun aðeins nokkrum dögum áður en félagið kýs sér nýjan forseta.

Lögreglan gerði húsleit hjá Barcelona í morgun og fréttir eru um að fyrrum forseti félagsins sé einn af þeim sem var handtekinn í þessari stóru lögregluaðgerð.

Josep Maria Bartomeu, hætti skyndilega sem forseti Barcelona í lok október eftir að hafa gengt þeirri stöðu síðan árið 2014.

Þá var allt í háalofti vegna samskipta hans og Lionel Messi en Argentínumaðurinn var búinn að fá alveg nóg af stjórnarháttum Bartomeu og vildi fara frá félaginu.

Forsetakosningar hjá Barcelona eru í þessari viku og yfir tuttugu þúsund meðlimir Barcelona hafa þegar kosið. Victor Font, Joan Laporta og Toni Freia vilja allir verða nýr forseti Barcelona.

Bartomeu er ekki eina stóra nafnið sem lögreglan handtók því framkvæmdastjórinn Oscar Grau og yfirlögfræðingur félagisns Román Gómez Pontí, voru einnig í þeim hópi samkvæmt fréttum frá Spáni.

Málið er tengt „Barça-gate„ þar sem yfirmenn félagsins voru sakaðir um að skipuleggja rógsherferð á samfélagsmiðlum gegn fyrrum og núverandi leikmönnum liðsins sem höfðu gagnrýnt forsetann.

Cadena SER útvarpsstöðin segir að málið snúist einnig um spillingu milli einstaklinga og svo grun um peningaþvætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×