Erlent

Fannst látinn sama dag og hann var ákærður fyrir man­sal og kyn­ferðis­of­beldi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Geddert þjálfaði fimleikalandslið Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 2012 í London. Hann er ákærður í 20 liðum fyrir mansal.
Geddert þjálfaði fimleikalandslið Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 2012 í London. Hann er ákærður í 20 liðum fyrir mansal. AP Photo/Kathy Willens

John Geddert, fyrrverandi þjálfari bandaríska fimleikalandsliðsins, fannst látinn í Grand Ledge í Michigan í Bandaríkjunum. Hann er talinn hafa stytt sér aldur, en hann var fyrr í dag ákærður fyrir mansal, kynferðisofbeldi og fleira, eftir því New York Times greinir frá.

Geddert átti áður æfingastöð þar sem fimleikafólk kveðst hafa þolað kynferðislegt ofbeldi af hendi Larry Nassar, sem eitt sinn var læknir landsliðsins.

NYT hefur eftir Dönu Nessel, ríkissaksóknara Michigan, að tuttugu ákæruliðir á hendur Geddert hafi snúið að mansali. Þar af voru fjórtán vegna nauðungarvinnu sem leiddu til meiðsla, en sex vegna barnamansals. Brotin eiga að hafa átt sér stað á árunum 2008 til 2018.

Þá var Geddert einnig ákærður fyrir fjárkúgun, fyrstu- og annarrar gráðu kynferðisglæpi og að ljúga að lögreglunni.

Saksóknarinn Nessel hafði ekki viljað gefa upp nákvæmlega hversu mörg mansalsfórnarlömbin eru. Hún hefur þó sagt að þau séu færri en 50 og öll undir lögaldri. Geddert hafði samþykkt að gefa sig fram við lögreglu í dag. Hann mætti þó ekki á tilsettum tíma, sem varð kveikjan að leit lögreglu að honum. Hann fannst svo látinn við áningarstað í Grand Ledge í Michigan.

Geddert þjálfaði fimleikalandslið Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum 2012, en hann hafði verið sakaður um að hafa beitt fimleikafólk sem hann þjálfaði grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Degi eftir að Geddert var tímabundið vísað úr fimleikasamtökum Bandaríkjanna vegna rannsóknar á ásökununum á hendur honum hætti hann þjálfun. Það var árið 2018.

Fréttin var uppfærð klukkan 21:54 með upplýsingum um andlát Geddert. Áður hafði verið greint frá ákæru á hendur honum.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér. Síminn hjá Pieta-samtökunum er jafnframt opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.


Tengdar fréttir

Fimleikaþjálfari dæmdur í fangelsi í tengslum við mál Nassar

Fyrrverandi yfirþjálfari fimleikadeildar Ríkisháskólans í Michigan í Bandaríkjunum var dæmdur í níutíu daga fangelsi fyrir að ljúga að lögreglu við rannsóknina á stórfelldum kynferðisbrotum Larrys Nassar, fyrrverandi læknis bandaríska ólympíuliðsins í fimleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×