Erlent

Síðasta styttan af Franco tekin niður

Atli Ísleifsson skrifar
Styttan af Franco var að finna við borgarhlið Melilla og var reist árið 1978, þremur árum eftir dauða einræðisherrans.
Styttan af Franco var að finna við borgarhlið Melilla og var reist árið 1978, þremur árum eftir dauða einræðisherrans. Getty

Síðasta styttan af fasíska einræðisherranum Franco sem enn var að finna á spænskri grundu, hefur nú verið tekin niður. Styttuna var að finna á Melilla, litlu spænsku landsvæði á norðvesturströnd Afríku, og var tekin niður eftir ráðamenn þar samþykktu að taka hana niður.

Verkamenn á vegum yfirvalda eyðulögðu í gær stallinn og báru styttuna á brott, en hún hafði staðið við borgarhliðið allt frá árinu 1978, þremur árum eftir dauða einræðisherrans.

BBC segir frá því að það hafi einungis verið fulltrúar hægriöfgaflokksins Vox sem hafi greitt atkvæði gegn því að láta fjarlægja styttuna. Höfðu þeir sagt styttuna vera til minningar um þátt Franco sem hershöfðingja í stríði Spánverja gegn ættbálkum í Marokkó á þriðja áratugnum.

Franco réði ríkjum á Spáni frá 1939 til dauðadags 1975. Alls er talið að um hálf milljón hafi látið lífið í spænska borgarastríðinu á árunu 1936 til 1939 sem leiddi til þess að Franco komst til valda. Í valdatíð sinni stýrði hann landinu harðri hendi þar sem hann hafði meðal annars heljartak á bæði fjölmiðlum og menntakerfi landsins.

Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að því að fjarlægja styttur og minnisvarða um Franco á Spáni, þar sem reynt hefur verið að viðurkenna þjáningu fórnarlamba Franco-tímans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×