Innlent

Lög­regla telur sig vera nær því að upp­lýsa málið

Sylvía Hall og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Frá vettvangi í Rauðagerði síðustu helgi.
Frá vettvangi í Rauðagerði síðustu helgi. Vísir/Vésteinn

Lögreglan telur sig vera nær því að upplýsa um morðið í Rauðagerði fyrir rúmri viku síðan, en yfirheyrslur fóru fram um helgina og vinnur lögregla að því að kortleggja ferðir sakborninga. Til skoðunar er hvort einhverjir hópar tengist málinu.

„Núna höfum við verið í yfirheyrslum og að greina gögn sem við höfum verið að sækja. Þeirri vinnu hefur verið haldið áfram í dag og í kvöld og á morgun. Rannsóknin miðar nokkuð vel miðað við umfang,“ segir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn.

Meðal þeirra gagna sem eru til skoðunar eru framburðir sakborninga sem og farsíma- og tölvugögn. Margeir vildi ekki fara nánar út í það hvað hefur komið fram í yfirheyrslum.

Að sögn Margeirs benda gögn málsins til þess að lögregla sé með hinn grunaða í haldi, þó hann geti ekki tjáð sig nánar um það. Lögregla hafi lagt hald á ýmsa muni við rannsókn málsins, allt frá smámunum upp í ökutæki.

„Það sem við erum að skoða eru hvort þarna séu einhverjar deilur eða hvort það sé eitthvað á milli tveggja aðila, eða hvort það séu einhverjir hópar sem tengjast þessu. Það er það sem við erum að skoða með þessari rannsókn.“

Ákvörðun hefur verið tekin um að gera kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum þeirra sem nú er í haldi lögreglu, en gæsluvarðhald yfir þremur sakborningum rennur út á morgun. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir hinum tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×