Innlent

Kortleggja ferðir sakborninga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lögreglan telur sig nær því að upplýsa málið. 
Lögreglan telur sig nær því að upplýsa málið. 

Lögreglan vinnur nú að því að kortleggja ferðir sakborninga í Rauðagerðismálinu. Grunur beinist að ákveðnum aðilum en enginn hefur játað á sig morðið. Skotvopnið er enn ófundið.

Yfirheyrslur yfir níu karlmönnum sem eru í haldi lögreglu í tengslum við rannsóknina á morðinu í Rauðagerði fóru fram um helgina. Málið er mikið umfangs og vinnur lögregla að úrvinnslu gagna, til dæmis farsímagagna, auk þess sem unnið hefur verið að því að kortleggja ferðir mannanna. Lögregla verst allra fregna og upplýsti með tölvupósti í morgun að ekki verði gefnar upplýsingar um málið fyrr en með fréttatilkynningu á morgun.

Samkvæmt heimildum fréttastofu beinist grunur lögreglu að ákveðnum aðilum en enginn hefur hins vegar játað á sig verknaðinn. Þá er skotvopnið enn ófundið en talið er að um hafi verið að ræða skammbyssu með hljóðdeyfi. Sakborningarnir eru flestir taldir tengjast með einhverjum hætti, en langflestir þeirra koma frá Albaníu, og einn frá Íslandi.

Tveir voru handteknir nú um helgina en öðrum þeirra var sleppt úr haldi. Hinn er ríflega fertugur og frá Albaníu, en hann var handtekinn í Vesturbæ Reykjavíkur seint á laugardag. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram á föstudag en gæsluvarðhald yfir hinum átta sakborningum málsins rennur út á morgun og miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×