Fótbolti

Bandarísku landsliðskonurnar hættar að krjúpa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allir leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins stóðu á meðan bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leikinn á móti Brasilíu.
Allir leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins stóðu á meðan bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leikinn á móti Brasilíu. Getty/Alex Menendez

Bandaríska kvennalandsliðið hélt sigurgöngu sinni áfram í gærkvöldi en það vakti líka talsverða athygli sem þær gerðu ekki fyrir leikinn sinn í gær.

Bandaríkin vann 2-0 sigur á Brasilíu í öðrum leik sínum á SheBelieves æfingamótinu í Orlando í Flórída. Þetta var fimmtándi sigur bandaríska kvennalandsliðsins í röð og 36. leikur liðsins í röð án taps. Christen Press og Megan Rapinoe skoruðu mörkin.

Þetta var líka annar leikur liðsins í SheBelieves mótinu en þær bandarísku höfðu unnið Kanada fyrir nokkrum dögum.

Bandaríska liðið vakti heimsathygli á sínum tíma fyrir að krjúpa í bandaríska þjóðsöngnum til að mótmæla óréttlæti svartra í heimalandi sínu.

Sumar fór niður á hné í þjóðsöngnum fyrir leikinn á móti Kanada en í leiknum á móti Brasilíu í gær þá stóðu þær allar þegar „The Star-Spangled Banner“ var spilaður.

Crystal Dunn, varnarmaður bandaríska liðsins, sagði fjölmiðlamönnum eftir leikinn að leikmenn liðsins væru hættar að mótmæla með því að krjúpa á meðan þjóðsöngurinn er spilaður. Í staðinn ætla þeir að einbeita sér að láta verkin tala utan vallar.

Landsliðskonurnar voru þó í upphitunarjökkum þar sem á stóð „Black Lives Matter“ og það hafði ekki breyst frá því í síðustu leikjum.

Dunn sagði að það hefði ekki farið fram kosning innan liðsins en þetta engu að síður sameiginleg ákvörðun leikmannanna.

„Þær sem voru að mótmæla með því að fara að niður á hnén vildu vekja athygli á harðræði lögregluþjóna og kynþáttafordómum í garð þeldökkra í landinu. Ég held að við höfum ákveðið að hætta þessu af því okkur finnst við ekki lengur þurfa að krjúpa í þjóðsöngnum af því að við erum að vinna vinnuna á bak við tjöldin. Við erum að berjast á móti kerfisbundnum rasisma og við ætluðum aldrei að krjúpa endalaust. Ég held að við séum allar stoltar af vinnu okkar á bak við tjöldin og þetta var leikurinn þar sem okkur fannst kominn tími til að færa okkur yfir á næsta stig í baráttunni fyrir breytingum,“ sagði Crystal Dunn.

Crystal Dunn er 28 ára gömul og ein af þeldökkum leikmönnum bandaríska landsliðsins. Hún hefur spilað yfir hundrað landsleiki á sínum ferli og var í heimsmeistaraliðinu 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×