Viðskipti innlent

Um 150 manns mættu á opið hús

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er mikið líf á fasteignamarkaðnum og ekki óalgengt að húsnæði seljist yfir ásettu verði.
Það er mikið líf á fasteignamarkaðnum og ekki óalgengt að húsnæði seljist yfir ásettu verði. Vísir/Vilhelm

140 til 150 manns mættu til að skoða einbýlishús í Hafnarfirði nýlega á opnu húsi. Húsið seldist síðan á 8% yfir ásettu verði. Davíð Ólafsson, löggiltur fasteignasali hjá fasteignasölunni Borg sem sá um söluna á húsinu, segir þetta til marks um skort á íbúðarhúsnæði.

Þetta kemur fram í umfjöllun um fasteignamarkaðinn ViðskiptaMogganum í dag. Davíð segir annað dæmi um blokkaríbúð á 3. hæð í fjölbýlishúsi í Reykjavík þar sem 80 til 90 manns mættu á opið hús. Íbúðin seldist síðan líka yfir ásettu verði.

„Við erum líka að sjá dæmi um staðgreiðslur. Þá eru engin lán tekin heldur er um að ræða beinar peningamillifærslur í fasteignaviðskiptum. Það er af því að vextir eru mjög lágir og fólk fer með peningana úr bönkunum og fjárfestir í steinsteypu,“ segir Davíð í samtali við Morgunblaðið.

Þá er mikil eftirspurn eftir sérbýli að sögn Kjartans Hallgeirssonar, formanns Félags fasteignasala, og það sé ekki bundið við tiltekin hverfi. Takturinn sé einnig annar nú þegar kemur að verðhækkunum á fasteignum; venjulega hækki ódýrustu eignirnar fyrst í verði og sérbýli síðast. Það sé ekki að gerast núna.

„Vaxtalækkunin styrkti stöðu millistéttarinnar en það skiptir líka máli aðkaupmáttur er góður hjá stórum hluta þjóðarinnar, þrátt fyrir erfiðleika hjá mörgum. Fyrir vikið er stór hluti af fasteignakeðjunni að virka ágætlega,“ segir Kjartan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×