Erlent

Aðkoma að sjónvarpsþáttum um leitina að Wall bjargaði foreldrum hennar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Peter Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Kim Wall.
Peter Madsen var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á Kim Wall.

Foreldrar blaðamannsins Kim Wall segja að aðkoma þeirra að sjónvarpsþáttaröð um morðið á dóttur þeirra hafi verið það eina sem kom í veg fyrir að þau féllu ofan í djúpan og dimman pytt.

Wall var myrt þegar hún hugðist taka viðtal við uppfinningamanninn Peter Madsen um borð í heimasmíðuðum kafbát hans í Kaupmannahöfn árið 2017.

Joachim og Ingrid Wall, sem bæði eru sænskir blaðamenn, tóku virkan þátt í leitinni að dóttur sinni. 

Kafbáturinn fannst hálfsokkinn daginn eftir að hin 30 ára Wall fór og hitti Madsen en Madsen var handtekinn og síðar ákærður eftir að líkamshlutar Wall fundust á nokkrum stöðum í Køge-flóa.

Madsen varð margsaga um hvað hafði átt sér stað og hélt því fram á tímabili að um slys hefði verið að ræða. Foreldrar Wall gáfust hins vegar aldrei upp en sjónvarpsþáttaröðin The Investigation fjallar um bæði um leitina að dóttur þeirra og ástríðu hennar fyrir blaðamennsku.

„Hún var stórkostleg ung kona“

„Þetta var eina leiðin til að komast í gegnum þetta; að gera eitthvað gott úr þessu,“ sögðu foreldrar Wall í viðtali við Sky News. Fyrir þau hefði verið afar mikilvægt að þættirnir snérust ekki um Madsen.

„Það gefur okkur tilgang að segja umheiminum frá því hver Kim var, að minnast hennar ekki sem fórnarlambs glæps heldur sem dótturinnar, unnustunnar, systurinnar, blaðamannsins, vinarins sem hún var,“ segja þau.

„Hún var hæfileikarík, stórkostleg ung kona. Við vonum að hennar verði minnst á þann veg.“

Joachim og Ingrid hafa stofnað sjóð til minningar um Kim, sem mun styðja við ungar blaðakonur sem vilja ferðast um heiminn og flytja þaðan fregnir.

Frétt Sky News.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×