Fótbolti

Draumastarfið: Fær borgað fyrir að horfa á fótbolta heima hjá sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungur drengur að horfa á fótbolta en myndin tengist fréttinni þó ekkert.
Ungur drengur að horfa á fótbolta en myndin tengist fréttinni þó ekkert. Getty/Mark Trowbridge

Sautján ára strákur frá Indlandi vinnur ansi áhugaverða fjarvinnu og talar sjálfur um að vera í algjör draumastarfi.

Draumastörf fólks eru auðvitað mismunandi og fara eftir smekk og metnaði hvers og eins. Einn ungur maður frá Bangalore í Indlandi er einn af þessu heppna fólki sem telur sig hafa fundið draumastarfið sitt. Það eru líka örugglega einhverjir sem öfunda hann.

Við erum tala um hinn sautján ára gamla Ashwin Raman sem hefur verið í fjarvinnu hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Dundee United.

Raman hefur unnið fyrir Dundee United frá árinu 2019 en á þeim tíma hefur liðið unnið sér aftur sæti meðal þeirra bestu.

Ashwin Raman ræddi starfið sitt í viðtali við breska ríkisútvarpið.

„Ég er enn að klípa sjálfan mig því ég trúi þessu eiginlega ekki enn,“ sagði Ashwin Raman við BBC.

Raman var duglegur að lesa fótboltabækur og heillaðist algjörlega af íþróttinni. Stevie Grieve, yfirnjósnari Dundee United, hafði samband við hann í gegnum Twitter og sóttist eftir aðstoð hans.

„Á þrettán ára afmælisdeginum mínum þá byrjaði ég að blogga og skrifaði nokkrar skelfilegar greinar á þeim árum. Stevie Grieve sendi mér skilaboð og spurði hvort ég vildi starf hjá félaginu,“ sagði Raman.

Starf Raman er að finna nýja leikmenn fyrir Dundee United og hann eyðir mörgum klukkutímum í að horfa á myndbönd með ákveðnum leikmanni áður en hann sendir sína skýrslu.

„Ég fæ borgað fyrir að vinna fyrir fótboltafélag og hafa áhrif. Ef við eigum möguleika á að ná í leikmann þá eyði ég mörgum klukkutímum í að skoða hann,“ sagði Raman.

Ashwin Raman viðurkennir þó að hann hafi ekki verið að vinna mikið undanfarið enda á fullu í prófum í skólanum. Hann er náttúrulega enn bara sautján ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×