Enski boltinn

Rúnar ekki í Evrópu­deildar­hóp Arsenal

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Alex á Molineux leikvanginum í gærkvöldi.
Rúnar Alex á Molineux leikvanginum í gærkvöldi. Nick Potts/Getty Images

Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er ekki í Evrópudeildarhóp Arsenal sem liðið tilkynnti inn til UEFA í dag. Nokkrar breytingar voru gerðar á 25 manna listanum frá því fyrir áramót.

Arsenal komst auðveldlega upp úr riðli sínum í Evrópudeildinni þar sem Rúnar Alex lék meðal annars fjóra af leikjum liðsins í riðlakeppninni og sýndi þar lipra frammistöðu.

Shkodran Mustafi og Sead Kolasinac detta eðlilega út af leikmannalistanum þar sem þeir eru farnir til Schalke og sömuleiðis þeir Sokratis (til Olympiakos) og Mesut Özil (til Fenerbache).

Rúnar Alex dettur einnig út af listanum en markvörðurinn Mat Ryan kemur inn í hans stað. Einnig kemur nýi maðurinn, Martin Ødegaard, inn í hópinn og sömu sögu má segja af Gabriel Martinelli sem var meiddur mestmegnis fyrir áramót.

Ásamt Mat Ryan og Bernd Leno þá eru Arsenal með þrjá aðra yngri markverði í hópnum en í reglum UEFA getur Arsenal bara verið með sautján aðkomumenn af leikmönnunum tuttugu og fimm.

Líklegt er þó að Rúnar Alex verði í markinu er Arsenal mætir Aston Villa á laugardaginn. Bernd Leno fékk rautt spjald í gær og varð Rúnar fyrsti íslenski markvörðurinn til að spila í úrvalsdeildinni. Mat Ryan er meiddur og líklegt að KR-ingurinn fái tækifæri eftir fína takta gegn Wolves í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×