Handbolti

Egyptar óhuggandi eftir tapið fyrir Dönum: „Þeir voru eyðilagðir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Egyptar voru með böggum hildar eftir tapið fyrir Dönum í gær.
Egyptar voru með böggum hildar eftir tapið fyrir Dönum í gær. epa/Mohamed Abd El Ghany

Egyptar voru skiljanlega sárir eftir tapið fyrir Dönum, 39-38, í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handbolta í gær.

Vítakastkeppni þurfti til að knýja fram úrslit. Þar höfðu Danir betur, skoruðu úr fjórum vítum en Egyptar úr þremur.

„Þetta er sársaukafullt, að tapa með þessum hætti. Mér fannst við ekki eiga skilið að tapa en svona er sportið. Ég get ekki lýst þessu. Við gáfum allt í þetta og lékum gegn heimsmeisturunum,“ sagði Mohamad Sanad eftir leikinn.

Danski sjónvarpsmaðurinn Lars Bruun-Mortensen hjá TV 2 lýsti ástandinu á viðtalssvæðinu eftir leikinn og sagðist aldrei hafa upplifað annað eins.

„Ég hef aldrei verið á viðtalssvæði þar sem eru jafn miklar tilfinningar. Leikmennirnir grétu og þurftu hjálp,“ sagði Bruun-Mortensen. „Við hliðina á mér grétu egypskir fjölmiðlamenn. Þeir voru eyðilagðir.“

Mads Mensah Larsen, leikmaður Dana, hafði samúð með Egyptum eftir leikinn. „Ég finn til með þeim, það er pínulítið að vinna Egypta á þennan hátt,“ sagði Mensah.

Danmörk mætir Evrópumeisturum Spánar í undanúrslitum HM á föstudaginn. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast Svíþjóð og Frakkland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×