Erlent

Biden og Pútín ræddust við í síma: Ber ekki alveg saman um efnið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þegar Donald Trump gengdi embætti forseta Bandaríkjanna var hann oft gagnrýndur fyrir linkind í garð Rússa en Biden hefur heitið því að taka harðari afstöðu.
Þegar Donald Trump gengdi embætti forseta Bandaríkjanna var hann oft gagnrýndur fyrir linkind í garð Rússa en Biden hefur heitið því að taka harðari afstöðu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hringdi í dag í Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Talsmönnum forsetanna ber ekki fullkomlega saman um hvaða mál voru til umræðu en Washington Post segir Biden hafa tjáð Pútín að Bandaríkin myndu verja sig gegn „óvinveittum aðgerðum“ af hálfu Rússlands.

Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Biden, sagði að forsetinn hefði hringt í Pútín til að ræða framlengingu á sáttmála ríkjanna um fækkun kjarnorkuvopna, sem að óbreyttu rennur út 5. febrúar næstkomandi.

Þá ræddu forsetarnir aðgerðir Rússa gagnvart Úkraínu, afskipti þeirra af nýafstöðnum forsetakosningum og meðferð Rússa á stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny og öðrum friðsælum mótmælendum.

Psaki sagði Biden einnig hafa rætt við Pútín um fregnir þess efnis að Rússar hefðu lagt fé til höfuðs bandarískum hermönnum í Afganistan.

Í yfirlýsingu frá Kreml sagði hins vegar aðeins að leiðtogarnir hefðu rætt málefni líðandi stundar, svo sem samstarf í baráttunni gegn kórónuveirunni, viðskipti og efnahagsmál.

Þá hefðu þeir rætt ákvörðun Donald Trump um að draga Bandaríkin úr svokölluðu Open Skies samkomulagi og framtíð kjarnorkuvopnasamkomulagsins við Íran.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×