Handbolti

Arnór verður fyrirliði eins og bróðir sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Þór Gunnarsson er á leið á sitt áttunda stórmót með íslenska landsliðinu.
Arnór Þór Gunnarsson er á leið á sitt áttunda stórmót með íslenska landsliðinu. vísir/vilhelm

Arnór Þór Gunnarsson verður fyrirliði íslenska handboltalandsliðsins í leiknum gegn Portúgal í undankeppni EM 2022 í kvöld.

Aron Pálmarsson er fyrirliði landsliðsins en verður ekki með í leikjunum gegn Portúgal í undankeppni EM og á HM í Egyptalandi vegna meiðsla.

Guðmundur Guðmundsson tilkynnti í dag að Arnór verði fyrirliði landsliðsins í leiknum í kvöld. Þótt það komi ekki fram í frétt HSÍ verður að teljast líklegt að Akureyringurinn verði líka með fyrirliðabandið á HM sem hefst í næstu viku.

Arnór fetar þar í fótspor yngri bróður síns, Arons Einars, sem hefur verið fyrirliði fótboltalandsliðsins síðan 2012.

Það er líklega einsdæmi að bræður hafi verið fyrirliðar tveggja landsliða á sama tíma.vísir/hulda margrét

Arnór, sem er 33 ára, leikur í kvöld sinn 115. landsleik. Hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Ungverjum fyrir þrettán árum. Arnór hefur skorað 332 mörk fyrir landsliðið.

Leikur Íslands og Portúgals hefst klukkan 19:30 í kvöld. Liðin mætast öðru sinni á Ásvöllum á sunnudaginn og svo í þriðja sinn á HM í Egyptalandi fimmtudaginn 14. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×