Erlent

Íranir færa út kvíarnar í úranauðgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ali Khamenei , æðsti leiðtogi Íran, og Hassan Rouhani, forseti landsins.
Ali Khamenei , æðsti leiðtogi Íran, og Hassan Rouhani, forseti landsins. Getty/leader.ir

Íranir hyggjast hefja framleiðslu á 20 prósenta auðguðu úrani sem brýtur í bága við alþjóðlegan kjarnorkusamning sem undirritaður var af ríkinu árið 2015.

Frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti dró ríkið einhliða úr samningnum sem undirritaður var 2015 hafa Íranir fært sig upp á skaftið og aukið framleiðsluna talsvert.

Samningurinn segir til um að úranið sem auðgað er í Íran skuli ekki fara yfir 3,67 prósenta hreinleika, en áætlanir Írans eru að framleiða 20 prósenta auðgað úran.

En hvað þýðir þetta? Á Vísindavefnum kemur fram að í náttúrulegu úrangrýti er að finna tvær samsætur Úrans, U-238 og U-235. Úran með hlutfall U-235 upp á þrjú prósent hentar vel til notkunar við raforkuframleiðslu í kjarnaofni og er það ekki nægilega virkt til þess að framleiða kjarnorkusprengju. Í slíkum vopnum þarf hlutfall U-235 að vera 80-90 prósent. Því vantar enn nokkuð upp á að Íranir geti framleitt kjarnavopn.

Þrátt fyrir það brýtur þetta í bága við samninginn sem undirritaður var árið 2015. Hin aðildarríki samningsins, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Rússland og Kína hafa lýst yfir vilja til að endurvekja samninginn og Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, sömuleiðis, að gefnum ákveðnum skilyrðum.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, hefur greint frá því að írönsk yfirvöld hefðu tilkynnt áætlanir um að auka auðgun úrans upp í 20 prósent. Í bréfi íranskra stjórnvalda til stofnunarinnar kom hins vegar ekki fram hvenær þessar áætlanir fari í framkvæmd.

Framleiðsla Íran á auðguðu úrani fór fyrst yfir mörk samningsins frá 2015 árið 2019 en síðan þá hefur auðgunarhlutfallið verið í kring um 4,5 prósent. Áætlanirnar um að auka framleiðsluna voru samþykktar í lögum sem íranska þingið samþykkti í síðasta mánuði í kjölfar þess að einn helsti kjarnorkuvísindamaður landsins, Mohsen Fakhrizadeh, var ráðinn af dögum.

Í lögunum kemur skýrt fram að auðgun úrans skuli aukin upp í 20 prósent verði viðskiptaþvingunum á olíu- og fjármálageira landsins ekki aflétt innan tveggja mánaða. Þá gefa lögin einnig heimild fyrir því að eftirlitsaðilum á vegum Sameinuðu þjóðanna verði meinaður aðgangur að kjarnorkuverunum í Natanz og Fordow.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×