Erlent

Sjald­séð náttúru­undur kætir strand­gesti í Kali­forníu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mögnuð ljósadýrð.
Mögnuð ljósadýrð. AP/Mark J. Terrill

Óvenjulegur öldugangur hefur undanfarna daga glatt strandgesti og brimbrettakappa í sunnanverðri Kaliforníu í Bandaríkjunum. Um er að ræða fyrirbæri sem lætur á sér kræla á nokkurra ára fresti meðfram strandlengjunni, nefnilega sjálflýsandi öldur.

Fjallað er um málið í breska dagblaðinu Guardian í kvöld. Blaðið hefur eftir íbúum á svæðinu að ljósadýrðin sé einkar glæsileg í ár. Það megi e.t.v. rekja til mikilla rigninga, sem stuðli að miklum þörungablóma í hafi.

Brimbrettakappi klýfur sjálflýsandi ölduna á Newport-strönd.AP/Mark J. Terrill

Hin draumkennda, bláa lýsing í hafinu, sem sjá má á meðfylgjandi myndum, er enda af völdum plöntusvifa sem blómgast um þetta leyti, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian. Svifin safnast saman á yfirborði sjávar að degi til og gefa vatninu brúnan blæ en þegar dimmir verða þau nær sjálflýsandi.

Strandgestir virða fyrir sér ölduganginn á Dockweiler-ströndinni í Los Angeles í síðustu viku.Vísir/AP

Hið sjaldséða náttúruundur er strandgestum mörgum eflaust sérstaklega kærkomið í ár. Baðstrandir í Kaliforníu hafa víðast hvar verið lokaðar vegna faraldurs kórónuveiru, sem leikið hefur Bandaríkin grátt undanfarna mánuði. Ráðamenn hafa nú smám saman verið að opna strandirnar almenningi á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×