Innlent

Vara við baðferðum í „stórhættulegu“ affalli eftir sprengingu á samfélagsmiðlum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Loftmynd af affallinu. Heitu vatni er veitt um stokk út í sjó þar sem borið hefur á því að fólk hafi verið að baða sig.
Loftmynd af affallinu. Heitu vatni er veitt um stokk út í sjó þar sem borið hefur á því að fólk hafi verið að baða sig. Mynd/Map.is

HS Orka varar við því að stórhættulegt getur verið að baða sig í affalli Reykjanesvirkjunar á Reykjanesi. Endurteknar tilkynningar og birtingar á samfélagsmiðlum bendi til þess að það sé að færast í aukana að fólk sé að baða sig í affallinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HS Orku en í samtali við Vísir segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku að í gegnum árin hafi nokkrar tilkynningar borist um að einhver hafi verið að baða sig í affallinu. Um helgina hafi hins vegar samfélagsmiðlar fyllst af myndefni frá affallinnu og borið á tali um að um nýja „náttúrulaug“ væri að ræða.

Svo er hins vegar alls ekki og í tilkynningunni er varað við því að það geti hreinlega verið stórhættulegt að baða sig í affallinu.

„Vatnið sem kemur úr affallinu er alla jafna um 35 gráðu heitt en það er þó stórhættulegt að baða sig í affallinu þar sem að hitinn getur skyndilega aukist í allt að 100 gráður ef að aðstæður í orkuverinu breytast. Ef það myndi gerast er ljóst að afleiðingarnar gætu orðið skelfilegar,“ segir í tilkynningunni.

„HS Orka vill því ítreka við alla að það er stranglega bannað að fara ofan í sjóinn við affallið. Þetta er ekki náttúrulaug eins og hefur verið haldið fram á samfélagsmiðlum heldur affall frá orkuveri sem getur verið mjög breytilegt eftir aðstæðum.“

Blaðamaður Vísis var á flakki um Reykjanesið um helgina og skoðaði meðal annars aðstæður á svæðinu seinni partinn á sunnudaginn. Þar voru líklega um tuttugu bílar og fólk naut veðurblíðunnar í heitu vatninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×