Erlent

Nærri því tíu þúsund ný smit í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður sem er talinn smitaður af Covid-19 fluttur á sjúkrahús í Moskvu.
Maður sem er talinn smitaður af Covid-19 fluttur á sjúkrahús í Moskvu. AP/Pavel Golovkin

Fjöldi þeirra sem hafa smitast af af Covid-19 í Rússlandsi jókst um 9.623 á milli daga og stendur nú í 124.054, samkvæmt opinberum tölum, og þar af 62.658 í Moskvu. Smituðum hefur aldrei fjölgað svo mikið í landinu og í raun hækkaði fjöldi nýrra smita um tuttugu prósent á milli daga.

Minnst 1.222 hafa látið lífið vegna sjúkdómsins, sem nýja kóronuveiran veldur.

TASS fréttaveitan, sem er í eigu ríkisins, segir 46,6 prósent þeirra sem greindust smitaðir á milli daga hafa verið án einkenna.

Valdamir Pútín, forseti Rússlands, tilkynnti í vikunni að útgöngubann og viðmið varðandi félagsforðun yrðu framlengt til 11. maí en til stóð að fella útgöngubannið niður í byrjun mánaðarins. Forsetinn hefur skipað embættismönnum að undirbúa afnám tilmæla í skrefum.

Borgarstjóri Moskvu sagði í vikunni að verið væri að koma upp neyðarsjúkradeildum í íþróttahúsum og verslunarmiðstöðvum til að bregðast við mikilli fjölgun smitaðra.

Smitum fjölgar einnig hratt í Pakistan

Svipaða sögu er að segja frá Pakistan þar sem metfjöldi nýrra smita var einnig tilkynntur í dag. Þar greindust 1.297 ný smit og hafa í heildina greinst 18.114. Þar hefur þó lítil skimun átt sér stað eða um níu þúsund á síðasta sólarhring. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að fjölga þeim í tuttugu þúsund á dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×