Erlent

Fundu tugi líka í flutningabílum í New York

Samúel Karl Ólason skrifar
Úfararstofan hafði leigt flutningabíla og hlaðið líkum í þá.
Úfararstofan hafði leigt flutningabíla og hlaðið líkum í þá. AP/Craig Ruttle

Lögreglan í New York fann í gær tugi rotnandi líka í flutningabílum fyrir utan útfararstofu í borginni í gær. Það var eftir að nágrannar hringdu í lögreglu og kvörtuðu undan miklum daun frá bílunum. Nákvæmur fjöldi líka í bílunum liggur ekki fyrir en AP fréttaveitan segir þau hafa verið um 50.

Óvíst er hvort fólkið dó vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur en forsvarsmenn útfararstofa, kirkjugarða, líkbrennsla og líkhúsa hafa átt mjög erfitt vegna fjölda látinna í borginni á undanförnum vikum. Minnst fjórtán þúsund manns hafa dáið í borginni vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar og ekki er hægt að grafa og brenna fólk nógu hratt.

Málið þykir til marks um þann mikla vanda sem þessi fjöldi látinna hefur valdið, samkvæmt New York Times.

Einn heimildarmaður NYT sagði líkin hafa verið flutt út eftir að kælirinn í geymslu útfararstofunnar bilaði. Nágranni sem rætt var við segir að á þriðjudaginn hafi fimm bílar verið fyrir utan útfararstofuna og þeir hafi allir verið fullir af líkum í líkpokum.

Þeim hafi verið staflað í bílana.

AP fréttaveitan segir að ís hafi verið settur í bílana til að kæla líkin en það hafi ekki dugað til. Útfararstofan var sektuð vegna lyktarinnar en forsvarsmönnum fyrirtækisins tókst að leigja stóran kælibíl í gær sem notaður var í staðinn.

Líkin voru flutt í stærri kælibíl í gær, eftir að lögreglan sektaði útfararstofuna vegna lyktarinnar.AP/Craig Ruttle



Fleiri fréttir

Sjá meira


×