Innlent

Staðan eftir gos í Eyjafjallajökli líkust núverandi ástandi

Andri Eysteinsson skrifar
Einar Á. E. Sæmundsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.
Einar Á. E. Sæmundsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Vísir/EgillA

Aðstæður á Þingvöllum eru óvenjulegar og jafnvel súrrealískar að mati þjóðgarðsvarðar. Ástandið líkist einna helst stöðunni eftir gos Eyjafjallajökuls.

„Ég man eftir því þegar að Eyjafjallajökull gaus fyrir tíu árum, þá var hérna tími þar sem ástandið var eitthvað álíka en þá lagaðist það og ferðaþjónustan fór af stað,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.

Einar segir þó að þrátt fyrir að töluverð bið gætið orðið eftir því að ferðamenn taki að streyma til landsins sé það bara tímaspursmál. Einar segist sannfærður um að Ísland hafi allt það sem dragi ferðamenn hingað.

Þó ferðamönnum hafi fækkað verulega á Þingvöllum undanfarið og einungis örfáar hræður gangi um þjóðgarðinn á daginn segir Einar að vinna starfsmanna þjóðgarðsins hafi ekki stöðvast.

„Við höfum ekkert stoppað í framkvæmdum. Við erum að fara að reisa salernisaðstöðu, nýjan útsýnispall við Hrafnagjá og það er í bígerð stór og nýr göngustígur,“ segir Einar.

„Ásamt því erum við ekkert af baki dottin með hugmyndir um framtíð staðarins. Við erum í vinnu með deiliskipulag um framtíðaruppbyggingu á þessu svæði sem mun leggja línur fyrir framtíðina í ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×