Viðskipti innlent

Meirihluta starfsmanna Iceland Travel sagt upp

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árni Gunnarsson forstjóri Icelandair Connect.
Árni Gunnarsson forstjóri Icelandair Connect. Vísir/Egill

Ferðaskipuleggjandinn Iceland Travel, dótturfélag Icelandair Group, mun segja upp meirihluta þeirra 130 sem starfa hjá fyrirtækinu. Að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Iceland Travel, má rekja uppsagnirnar til hins „algjöra tekjufalls“ sem orðið hefur í ferðaþjónustu vegna yfirstandandi kórónuveirufaraldurs.

Fyrirtækið hafði þegar lækkað starfshlutfall starfsmanna sinna en í pósti Árna til starfsfólks í dag segir hann að ekki verði hjá uppsögnum komist. „Þar sem ekki er hægt að gera ráð fyrir því að starfsemin taki við sér á ákveðnum tíma verðum við að ganga ansi nærri fyrirtækinu með uppsagnir og sem varúðarráðstöfun segja upp meirihluta starfsmanna félagsins,“ skrifar Árni.

Samhliða þessu verður mannauðssvið Iceland Travel lagt niður og upplýsingatæknideild félagsins verður sameinuð upplýsingatæknisviði Icelandair. Breytingarnar fela einnig í sér að framleiðsla og rekstur sameinast undir stjórn Berglaugar Skúladóttur.

„Ferðaþjónusta í öllum heiminum á undir högg að sækja og við ekki undanskilin þar en þegar rofar til veit ég að Ísland mun koma sterkt inn sem áfangastaður og Iceland Travel mun ná að vaxa aftur þegar þar að kemur,“ skrifar Árni. Vísir reyndi að ná í Árna í morgun án árangurs.

Viðbúið var að ferðaþjónustufyrirtæki myndu segja upp starfsfólki um þessi mánaðamót. Þannig tilkynntu Kynnisferðir um 150 uppsagnir í morgun, 30 var sagt upp hjá Fríhöfninni, auk þess sem Icelandair sögðu rúmlega 2000 manns upp störfum í gær í stærstu einstöku hópuppsögn Íslandssögunnar. Það sem af er degi hafa Vinnumálastofnun borist 8 tilkynningar um uppsagnir þar sem 265 hefur verið sagt upp störfum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×