Handbolti

Lentu 33 sinnum í hrömmunum á Alfreð og Erlingi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Kristjánsson og Sigmar Þröstur Óskarsson lyfta bikarnum á forsíðu Dags á Akureyri en þetta var fyrsti stóri titill handboltaliðs í bænum,
Erlingur Kristjánsson og Sigmar Þröstur Óskarsson lyfta bikarnum á forsíðu Dags á Akureyri en þetta var fyrsti stóri titill handboltaliðs í bænum, Mynd/Dagur

KA-menn unnu sinn fyrsta stóra titil í handboltanum fyrir aldarfjórðungi síðan þegar karlalið félagsins varð bikarmeistari árið 1995 eftir magnaðan bikarúrslitaleik á móti Val í Laugardalshöllinni.

KA vann leikinn 27-26 eftir framlengdan leik eftir að Guðmundur Hrafnkelsson hafði tryggt Valsliðinu framlengingu með því að verja vítakast Valdimars Grímssonar í lok venjulegs leiktíma.

Ólafur Sigurgeirsson hjá HB Statz nýtti tækifærið þegar Rúv endursýndi úrslitaleikinn á dögunum og tók saman tölfræðina úr honum.

Það sem vakti sérstaka athygli var frammistaða reynsluboltanna í miðri KA-vörninni.

Þar spiluðu þeir Alfreð Gíslason og Erlingur Kristjánsson hlið við hlið. Alfreð var spilandi þjálfari liðsins en Erlingur var fyrirliði.

Alfreð Gíslason var þarna á 36. aldursári og Erlingur hélt upp á 33 ára afmælið sitt nokkrum mánuðum seinna. Þeir voru því engin unglömb sem handboltamenn á þeim tíma.

Valsmenn voru með yngra lið og sigurstranglegra fyrir leikinn enda þar á ferðinni Íslandsmeistara síðustu tveggja ára.

KA-menn höfðu líka aldrei unnið stóran titil en það breyttist þennan dag í Laugardalshöllinni ekki síst vegna frábærrar frammistöðu gömlu mannanna.

HB Statz sýndi það að Valsmenn lentu 33 sinnum í hrömmum Alfreðs og Erlings í þessum leik og KA liðið var alls með 65 löglegar stöðvanir í leiknum.

Erlingur var með sautján lögleg stopp og Alfreð var með sextán. Erlingur gerði ekki mikið í sóknarleiknum en Alfreð var aftur á móti sex mörk úr aðeins níu skotum.

Samkvæmt einkunnargjöf HB Statz þá fengu þeir Erlingur og Alfreð báðir tíu í einkunn fyrir varnarleikinn í þessum leik.

Maður leiksins var aftur á móti markvörðurinn Sigmar Þröstur Óskarsson sem fékk tíu í heildareinkunn en hann varði 22 skot í leiknum þar af fjögur víti. Sigmar Þröstur var ekkert unglamb heldur enda á 34. aldursári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×