Viðskipti innlent

Lofsyngur aðgerðir ríkisstjórnarinnar og segir engum upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Haraldur Teitsson er afar ánægður með útspil ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun.
Haraldur Teitsson er afar ánægður með útspil ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Aðsend

Haraldur Teitsson, framkvæmdastjóri hjá rútufyrirtækinu Teiti Jónassyni og formaður Félags hópferðaleyfishafa, hrósar stjórnvöldum fyrir hvernig brugðist hafi verið við kórónuveirufaraldrinum. Allir 25 bílstjórar fyrirtækisins eru enn í vinnu og reiknar hann með að svo verði út sumarið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti þrjú úrræði til stuðnings launafólki og fyrirækjum á blaðamannafundi í morgun.

Frá blaðamannafundinum í morgun.Vísir/Vilhelm

Hlutabótaúrræði stjórnvalda um greiðslu allt að 75 prósent launa verður óbreytt út júní en eftir það fer hlutfallið upp í 50 prósent út ágúst. Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Þá geta fyrirtæki sem orðið hafa fyrir 75 prósenta tekjuskerðingu eða meira sótt um stuðning frá ríkinu til greiðslu hluta launa fólks sem sagt er upp störfum vegna kórónuveirufaraldursins.

Haraldur segir að frá hans bæjardyrum séð virðist útspil ríkisstjórnarinnar alltaf koma á réttum tímpunkti.

„Þau eru í sömu óvissu og við,“ segir Haraldur.

Vonar að birti til í haust

Sléttur mánuður er síðan Vísir ræddi við Harald um stöðu rútufyrirtækisins þann 28. mars. Þar lýsti hann því að fyrirtækið hefði á einni viku farið úr því að allt væri á fullu yfir í að ekkert væri að gera. Hann sagðist ætla að standa með starfsfólkinu, nýta hlutabótaúrræði stjórnvalda og halda fólki í vinnu.

Aðgerðirnar í dag breyta miklu að sögn Haraldar.

„Þetta hjálpar ferðaþjónustufyrirtækjum eins og okkar fjölskyldufyrirtæki,“ segir Haraldur en rútufyrirtækið hefur verið starfandi frá árinu 1963. Um 25 bílstjórar eru á launaskrá fyrirtækisins.

Rútur frá Teiti á Keflavíkurflugvelli. Haraldur reiknar ekki með að margir ferðamenn verði farþegar í rútum fyrirtækisins í sumar.Vísir/Vilhelm

Fyrirtækið sinnir töluverðum skólaakstri sem nú stefnir í að fari á fullt frá og með 4. maí. Sömu sögu er að segja um akstur fatlaðra.

„Við höldum öllum bílstjórum í vinnu áfram út sumarið og vonum svo að eitthvað gerist í haust. Við erum í ágætis málum og bjartsýn á framtíðina.“

Hann segir þó alla meðvitaða að ríkið geti ekki haldið uppi heilli atvinnugrein í langan tíma.

„Sumarið er búið“

Allir starfsmennirnir fóru á hlutabótaleiðina þegar hún var kynnt. Svoleiðis verði það áfram þótt mögulega breytist hlutfallið sem fyrirtækið greiðir sjálft af launakostnaði ef verkefnunum fjölgar í maí.

Haraldur gerir ekki ráð fyrir neinum ferðamönnum í jöfnu sinni.

„Sumarið er búið, það verður ekkert ferðamannasumar. Það er ljóst,“ segir Haraldur.

Hann vonast samt til þess að leiðin fyrir ferðamanninn hingað til lands opnist fyrr en síðar. Mögulega geri einstök lönd með sér samning, Ísland og Þýskaland til dæmis, um gagnkvæmt streymi. Eitthvað svoleiðis mætti skoða þegar faraldurinn verður að mestu yfirstaðinn í viðkomandi löndum.

Telur Ísland geta gert góða hluti

Haraldur segir stuðning ríkisins sem gefi fyrirtækjum kost á stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti það eina sem sé sérstaklega vel í lagt. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þúsund krónur.

„Auðvitað er þetta rosalegt matsatriði og erfitt að setja niður tölu. En á endanum snýst þetta um að halda eins mörgum í vinnu og hægt er,“ segir Haraldur.

Fáir ferðamenn hafa dáðst að Gullfossi undanfarnar vikur þótt Íslendingar fari þangað í auknara mæli.Vísir/Vilhelm

Hann merkir gríðarlega góðan anda hjá bílstjórum sínum. Hópurinn hafi sjaldan verið jafnþéttur í þessu skrýtna ástandi.

Haraldur er ekki örvæntingarfullur jafnvel þótt allir kúnnar sem bókað hafa í sumar afbóki. Mestu máli skiptir að fækka smitunum og tryggja að þau komi ekki aftur og aftur.

„Þá held ég að Ísland komi sterkt inn,“ segir Haraldur. Vonandi líði ekki heilt ár þangað til. Hann lofar ríkisstjórnina sem hann telur skilja að ferðaþjónustan þurfi að standa sterk þegar „actionið“ byrjar.

„Við verðum að vera fljót í bátana, bæði fyrir minni félög eins og okkur og svo fyrirtæki sem eru að loka alveg.“

Eðlilega fari einhverjir á hausinn en vonandi ekki allir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×