Sport

Sprautuðu alla keppendur með sótthreinsivökva

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hnefaleikakappinn þurfti að fara í mjög sérstaka sturtu rétt fyrir bardagann sinn.
Hnefaleikakappinn þurfti að fara í mjög sérstaka sturtu rétt fyrir bardagann sinn. Mynd/Instagram

Flestar íþróttir hafa legið í dvala undanfarna mánuði á meðan heimurinn berst við útbreiðslu kórónuveirunnar en út í heimi eru sumir mótshaldarar eru tilbúnir að ganga ansi langt til að halda keppni gangandi.

Hnefaleikakeppnin sem vakti heimsathygli um helgina fór fram í Níkaragva í Mið-Ameríku en það var þó ekki fyrir keppnina sjálfa heldur meðferðina á keppendunum sextán. Átta bardagar fóru fram þetta kvöld og það voru 800 áhorfendur í salnum.

Áhorfendur þurftu ekki að borga sig inn í Alexis Arguello Sports höllina í Managua. Þeir þurftu aftur á móti að þola það að sótthreinsa sig, láta hitamæla sig við inngöngu og að sitja síðan í eins metra fjarlægð frá hverjum öðrum.

Allt eru það skiljanlegar og þolanlegar kringumstæður nú þegar allir eru að reyna að halda kórónuveirunni í skefjum.

Aðra sögu var að segja að keppendunum sjálfum því hnefaleikakapparnir þurftu að ganga í gegnum í furðulega meðferð áður en þeir fengu að stíga sinn í sjálfan hringinn.

Þjálfarar og aðstoðarkonurnar þurftu öll að vera með grímu allan tímann og hnefaleikakapparnir voru með grímu allt þar til að þeir fóru inn í hringinn.

Það sem hneykslaði þó fólk var að hnefaleikakapparnir voru sprautaðir með sótthreinsivökva áður en þeir fór inn í hringinn.

Bardagarnir voru í beinni sjónvarpsútsendingu hjá bæði Canal 6 og ESPN Latin America og þaðan komu tekjurnar.

Rosendo Alvarez, tvöfaldur heimsmeistari, stóð fyrir keppninni og varði ákvörðun sína að halda bardagakvöldið þrátt fyrir ástandið.

„Níkaragva er fátækt land og boxarar þurfa að borða. Þeir geta ekki verið innilokaðir í sínu húsi,“ sagði Rosendo Alvarez.

Það hafa aðeins þrettán tilfelli af COVID-19 komið upp í Níkaragva og bæði fótbolta- og hafnarboltatímabilið er enn í fullum gangi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×