Erlent

Takmarka sölu á niktótínvörum í Frakklandi

Sylvía Hall skrifar
Nikótínplástrar og tyggjó eru á meðal þess sem er nú bannað að selja á netinu.
Nikótínplástrar og tyggjó eru á meðal þess sem er nú bannað að selja á netinu. Vísir/Getty

Eftir að athuganir vísindamanna bentu til þess að notkun nikótíns gæti dregið úr líkum á því að smitast af kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum hafa frönsk yfirvöld bannað sölu nikótínvara á netinu og takmarkað hana í apótekum. Er þetta gert til þess að koma í veg fyrir það að fólk noti of mikið af nikótíni í þeirri von að verja sig gegn veirunni.

Þetta kemur fram á vef BBC þar sem segir jafnframt að fólk muni nú aðeins geta keypt mánaðarskammt af nikótínvörum í apótekum. Þá verði kaupin skráð niður til þess að tryggja að fólk kaupi ekki umfram leyfilegt magn.

Til stendur að prófa kenninguna á sjúkrahúsum í Frakklandi með nikótínplástrum en athuganir vísindamannanna bentu til þess að reykingafólk væri í miklum minnihluta meðal þeirra sem smitast höfðu af veirunni.

Heilbrigðisfulltrúi frönsku ríkisstjórnarinnar sagði athuganirnar áhugaverðar, en það breytti þó ekki þeirri staðreynd að 75 þúsund manns létu lífið árlega af völdum reykinga í Frakklandi. Þá hefðu þeir reykingamenn sem smituðust af veirunni fundið fyrir verri og alvarlegri einkennum en aðrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×