Innlent

Lára Björg snýr aftur til aðstoðar ríkisstjórninni í jafnréttismálum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lára Björg Björnsdóttir hætti störfum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í upphafi árs sökum álags. 
Lára Björg Björnsdóttir hætti störfum sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í upphafi árs sökum álags. 

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að ráða Láru Björgu Björnsdóttur, fyrrverandi upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, sem nýjan aðstoðarmann ríkisstjórnar á sviði jafnréttismála og annarra samstarfsverkefna ráðuneyta. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Lára tekur við starfinu af Höllu Gunnarsdóttur sem lét af störfum á dögunum og réð sig til ASÍ þar sem hún verður framkvæmdastjóri.

Lára tilkynnti í upphafi árs að hún þyrfti að hlusta á líkamann og ráð lækna eftir mikið álag í tvö ár. Því ætlaði hún að hætta sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, starf sem Róbert Marshall hefur gegnt frá því um mánaðamótin síðustu.

Mun Lára meðal annars hafa aðkomu að heildarendurskoðun jafnréttislaga og undirbúningi alþjóðlegrar ráðstefnu samtaka sem berjast gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni sem ákveðið hefur verið að halda á Íslandi í maí 2021. 

Þá mun Lára einnig taka þátt í samstarfi fleiri ráðuneyta í útlendingamálum auk aðkomu að margháttuðum öðrum verkefnum í samstarfi ráðuneyta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×