Erlent

Dauðsföllum fjölgar enn á Spáni og smit komin yfir hundrað þúsund

Samúel Karl Ólason skrifar
Tilkynnt var í dag að minnst 864 hafa dáið á síðasta sólarhring. Sú tala hefur aldrei verið hærri á Spáni og heilt yfir eru 9.053 dánir.
Tilkynnt var í dag að minnst 864 hafa dáið á síðasta sólarhring. Sú tala hefur aldrei verið hærri á Spáni og heilt yfir eru 9.053 dánir. AP/Manu Fernandez

Yfirvöld á Spáni hafa nú staðfest rúmlega hundrað þúsund smit þar í landi og dauðsföll hafa aldrei verið fleiri á einum degi. Þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölgun nýrra greindra smita fjölgar dauðsföllum sífellt, fyrir utan smávægilega fækkun fyrir helgi. Tilkynnt var í dag að minnst 864 hafa dáið á síðasta sólarhring. Sú tala hefur aldrei verið hærri á Spáni og heilt yfir eru 9.053 dánir. Alls hafa greinst 102.136 smit.

Spánn er næst efst á lista ríkja þar sem flestir hafa dáið. Ítalía er efst en þar hafa 12.428 dáið, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans.

Flestir Spánverjar voru settir í útgöngubann þann 14. mars en nýja kórónuveiran virðist hafa haldið áfram að dreifa úr sér en þó hægar en áður. Meðal þeirra sem hafa smitast eru þrír ráðherrar og eiginkona Pedro Sanchez, forsætisráðherra. Þar að auki hafa þrír af fimm meðlimum sérstakrar nefndar sem stofnuð var til að veita þjóðinni upplýsingar um faraldurinn greinst með veiruna, samkvæmt frétt Reuters.

Sjá einnig: Óttaslegin á Spáni og komast ekki heim

El País segir að skimun fyrir smitum nái enn eingöngu til fólks sem sýnir mikil einkenni. Það þykir til marks um að útbreiðsla veirunnar sé í raun mun meiri en vitað sé. Til að mynda hafi greinst 29.284 smit í Madríd en þar hafa þó 3.865 dáið sem þykir óeðlilega hátt hlutfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×