Erlent

Laug um einkenni svo hann gæti verið viðstaddur barnsburð

Samúel Karl Ólason skrifar
Í gærkvöldi höfðu minnst 1,550 manns dáið vegna Covid-19 í New York.
Í gærkvöldi höfðu minnst 1,550 manns dáið vegna Covid-19 í New York. AP/Mary Altaffer

Skömmu eftir að hún fæddi barn á fæðingardeild Strong Memoiral sjúkrahússins í Rochester í New York ríki, þungamiðju heimsfaraldursins í Bandaríkjunum, byrjaði kona að sýna einkenni Covid-19. Starfsmenn sjúkrahússins fóru á fullt í að draga úr mögulegri útbreiðslu veirunnar á fæðingardeildinni og uppgötva hvernig konan hafði smitast. Þá viðurkenndi eiginmaður hennar að þau höfðu logið um að hann væri líklega smitaður af nýju kórónuveirunni svo hann gæti verið viðstaddur fæðingu barns þeirra.

Við komuna á sjúkrahúsið í síðustu viku voru þau bæði spurð tveggja spurninga. Sú fyrri var: Ertu við góða heilsu? Sú seinni: Hefur þú verið í nálægð við einhvern með Covid-19?

Hjónin vissu þá að maðurinn væri veikur og hann sýndi einkenni Covid-19 en sögðu ósatt. Þau hafa nú verið útskrifuð af sjúkrahúsinu og gert að fara í einangrun. Bæði hafa greinst með sjúkdóminn.

Starfsfólkið sem sinnti þeim hjónum verður áfram við vinnu, svo lengi sem það sýnir ekki einkenni. Samkvæmt Rochester Democrat & Chronicle hefur þeim einnig verið gert að bera andlitsgrímur og mæla hita sinn reglulega. Ekkert þeirra hefur greinst með veiruna.

Við sögðum frá því á sunnudaginn að fimm barnshafandi konur hér á landi séu með Covid-19. Þá hafi minnst fjórir starfsmenn á kvennadeildum Landspítalans hafi verið settir í sóttkví eftir að nýbakaðir faðir sem dvaldi á spítalanum í nokkra daga greindist með smit.

Eftir það voru reglur hertar og mökum ekki leyft að vera með móður og nýbura á meðgöngu- og sængurlegudeild eftir fæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×