Skoðun

Frjáls fjölmiðlun í húfi

Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í því að veita stjórnvöldum aðhald. Ekki síst á erfiðum tímum eins og nú, þar sem tímabundin inngrip í almenn mannréttindi eru meðal viðbragða við Covid-19. Fyrirliggjandi skuldsetning ríkissjóðs í tengslum við neyðaraðstoðina og aðgerðirnar sjálfar fá heldur ekki hefðbundna umfjöllun á Alþingi. Allt er upp í loft og þeim fjölgar dæmunum erlendis frá þar sem ýmsar gagnrýniverðar stjórnvaldsaðgerðir fljóta í gegn í skjóli Covid-19 þokunnar sem umlykur allt. Í einstaka ríkjum er ástandið svo slæmt að lýðræðið sjálft á í vök að verjast.

Á þessum fordæmalausum tímum búa einkareknir fjölmiðlar við erfiðara rekstrarumhverfi en nokkru sinni áður. Á sama tíma búum við svo hér á landi að rekstrarleg framtíð þeirra er í höndum stjórnvalda, sem hefur það sem er af kjörtímabilinu mistekist að ná saman um nauðsynlegar aðgerðir til að styðja við rekstur fjölmiðla. Þannig hefur fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra setið fast í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis það sem af er ári, og ákveðnir stjórnarþingmenn hafa lýst því yfir að þeir styðji málið ekki. Gott og vel, þá þarf annars konar aðstoð koma til ef við viljum búa hér áfram við frjálsa fjölmiðlun. Og við hljótum öll að vilja það!

Efnahagsleg áhrif Covid-19 koma illa við einkarekna fjölmiðla, enda hrun í auglýsingatekjum það síðasta sem þeir máttu við.Einstaka ráðherrar hafa verið með hálfkveðnar vísur síðustu vikur um að nú sé aðstoðin alveg að koma. En ekkert hefur gerst. Þetta gengur auðvitað ekki lengur. Það er nægileg áskorun fyrir fjölmiðla að veita stjórnvöldum nauðsynlegt aðhald á tímum sem þessum. Það er ekki hægt að bjóða einkareknum fjölmiðlum upp á að sinna því aðhaldshlutverki á sama tíma og þessi sömu stjórnvöld geta með einu pennastriki ráðið örlögum þeirra.

Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar er boðaður á morgun. Það verða mjög alvarleg tíðindi ef einkareknum fjölmiðlum verður ekki rétt nauðsynlegt hjálparhönd þar.

Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×