Innlent

Óprúttinn aðili náði stjórn á Facebook-síðu lögreglunnar

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögreglustöð embættisins á Akureyri.
Lögreglustöð embættisins á Akureyri. Vísir/vilhelm

Svo virðist sem að óprúttinn aðili hafi náð stjórn á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra fyrr í dag. Nafni síðunnar var breytt nú rétt fyrir hádegi en lítið er vitað um málsatvik eins og stendur.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við Vísi fljótlega eftir hádegi að enn væri unnið að því að ná aftur stjórn á síðunni.

Facebook-síðan eins og hún var á tímabili í dag.Skjáskot

„Við tókum eftir þessu í morgun og erum búin að vera að reyna að finna út úr þessu.“

Lítið er vitað um atvikið að svo stöddu og ekki liggur fyrir hvernig aðilinn komst yfir aðganginn.

„Það lítur út eins og það sé einhver hakkari að störfum hérna,“ sagði Halla.

Um stund gekk síða lögreglunnar undir heitinu Viral axe en hún virðist nú vera komin í samt horf.

Í færslu á Facebook-síðu sinni staðfestir embættið að þetta hafi átt sér stað og segir að nú liggi fyrir hvað hafi gerst. Lögreglan nýtir tækifærið og hvetur fólk til þess að huga vel að tölvutengdum öryggisatriðum.

Fréttin var uppfærð með tilkynningu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×