Erlent

Fjöldi látinna á Spáni hækkar mjög

Samúel Karl Ólason skrifar

Fjöldi látinna á Spáni vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýja kórónuveiran veldur, hækkaði um 738 á síðasta sólarhring og er nú í heildina 3.434. Með því hefur Spánn tekið fram úr Kína varðandi fjölda látinna, þar sem opinberar tölur segja að 3.285 hafi dáið. Það ríki sem er hvað verst statt er Ítalía, þar sem tala látinna er 6.820.

Á heimsvísu er búið að staðfesta um 450 þúsund smit og hafa rúmlega 20 þúsund látið lífið. Rúmlega 110 þúsund manns hafa smitast og náð sér, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum.

Samkvæmt frétt BBC mun ríkisstjórn Spánar falast eftir því í kvöld að þingmenn framlengi neyðarástandsyfirlýsingu um tvær vikur. Samkvæmt neyðaraðgerðum á Spáni hefur fólki verið meinað að yfirgefa heimili sín, nema til að versla nauðsynjar eða fara til vinnu.

Carmen Calvo, aðstoðarforsætisráðherra Spánar, hefur verið lögð inn á sjúkrahús vegna öndunarerfiðleika og er hún með Covid-19.

Kórónuveiran hefur komið verulega niður á heilbrigðisstarfsfólki á heimsvísu en hvergi verr en á Ítalíu og Spáni. Þar hefur verið skortur á hlífðarbúnaði um margra vikna skeið.

Á spáni hafa um 6.500 heilbrigðisstarfsmenn smitast og samsvarar það 13,6 prósentum allra tilfella í landinu. Minnst þrír heilbrigðisstarfsmenn hafa dáið, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

„Við erum að hruni komin. Við þurfum meira fólk,“ sagði hjúkrunarfræðingurinn Lidia Perera. „Ef þú hefðir sagt mér fyrir þremur mánuðum að við yrðum að vinna við þessar kringumstæður á Spáni, hefði ég ekki trúað þér.“

Á Ítalíu er heilbrigðisstarfsfólk um tíu prósent allra smitaðra munu minnst 19 hafa dáið. Hjúkrunarfræðingar og læknar hafa grátbeðið ríkisstjórn landsins um fleiri grímur, hanska og gleraugu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×