Fótbolti

Pele segir að Cristiano Ronaldo sé betri en Lionel Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pele hefur afhent Cristiano Ronaldo nokkur verðlaun í gegnum tíðina.
Pele hefur afhent Cristiano Ronaldo nokkur verðlaun í gegnum tíðina. Getty/ John Gichigi

Brasilíska goðsögnin Pele hefur nú blandað sér inn í umræðuna hvor sé betri Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi. Pele velur Evrópumanninn frekar en Suður-Ameríkumanninn.

Cristiano Ronaldo og Lionel Messi hafa verið í nokkrum sérflokki í meira en áratug og hafa saman unnið ellefu af síðustu tólf Gullhnöttum sem besti knattspyrnumaður heims.

Messi vann Ballon d'Or í sjötta sinn á síðasta ári og bætti þar með met sitt og Cristiano Ronaldo. Allan síðasta áratug hafa menn síðan rökrætt það hvor þeirra sé betri og hvor þeirra sé mögulega besti fótboltamaður allra tíma.

Pele hefur sína skoðun eins og flestir áhugamenn um fótbolta og hann tjáði hana í viðtali á YouTube rásinni Pilhado.

Pele er á því að Cristiano Ronaldo sé besti fótboltamaður heims og þar með betri leikmaður en Lionel Messi. Ástæðan er að mati Pele að Cristiano Ronaldo sé stöðugri leikmaður.

„Í dag er besti leikmaður heims Cristiano Ronaldo. Ég tel að hann sé bestur af því að hann er stöðugri leikmaður. Það má vissulega ekki gleyma [Lionel] Messi auðvitað en hann er ekki framherji,“ sagði Pele við Pilhado.

Umræðan fór líka í það að tala um hver sér besti fótboltamaður sögunnar.

„Það er spurning sem er erfitt að svara. Við megum ekki gleyma mönnum eins og Zico, Ronaldinho og Ronaldo. Í Evrópu voru það síðan Franz Beckenbauer og Johan Cruyff,“ sagði Pele en hann er enn kokhraustur þótt að hann sé orðinn 79 ára gamall.

„Það er ekki við mig að sakast en ég held að Pele hafi verið betri en þeir allir,“ sagði Pele sem varð þrisvar sinnum heimsmeistari með brasilíska landsliðinu. Það vekur líka athygli að hann nefnir ekki Diego Maradona á nafn en það þarf reyndar ekki að koma mikið á óvart enda ekki miklir vinir þar á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×