Innlent

Ók drukkinn yfir tvö um­ferðar­skilti og inn í garð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mjög fámennt var í miðborginni í nótt, aðra helgina í samkomubanni.
Mjög fámennt var í miðborginni í nótt, aðra helgina í samkomubanni. Vísir/vilhelm

Ökumaður, sem grunaður er um ölvunarakstur, ók bíl sínum utan í vegrið á sjöunda tímanum í gær, yfir tvö umferðarskilti og hafnaði að lokum inni í garði á höfuðborgarsvæðinu. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu að lokinni sýnatöku. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvar á höfuðborgarsvæðinu óhappið varð, utan þess að það heyrir undir umdæmi lögreglu í Kópavogi og Breiðholti.

Lögregla bókaði alls fimmtíu mál bókuð frá klukkan fimm í gær og þar til fimm í morgun. Alls voru fimm vistaðir í fangageymslu. Mjög fámennt var í miðborginni, að því er fram kemur í dagbók lögreglu, en margar tilkynningar eða kvartanir bárust um hávaða í heimahúsum.

Árásarmenn réðust á mann fyrir utan skemmtistað í miðborginni á öðrum tímanum í nótt og veittu honum nokkra áverka í andliti. Vitni gátu gefið greinargóðar lýsingar árásarmönnum, sem voru farnir af vettvangi.

Þá réðust nokkrir menn að einum utandyra í Kópavogi á öðrum tímanum. Málið er í rannsókn og frekari upplýsingar liggja ekki fyrir. Þá var karlmaður handtekinn fyrir heimilisofbeldi snemma á öðrum tímanum í umdæmi lögreglu í Kópavogi og Breiðholti. Hann var vistaður í fangageymslu.

Umferðaróhapp varð á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ skömmu eftir miðnætti þegar bifreið var ekið á ljósastaur. Ekki urðu slys á fólki en bifreiðin skemmdist, sem og ljósastaurinn. Ökumaðurinn er grunaður um ölvunarakstur en var látinn laus að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×